Ganga Blikar á lagið í kvöld?

Ásgeir Börkur Ásgeirsson og félagar í HK mæta FH en …
Ásgeir Börkur Ásgeirsson og félagar í HK mæta FH en Höskuldur Gunnlaugsson og Blikar taka á móti Grindavík. mbl.is/Hari

Breiðablik getur minnkað forskot KR á toppi Pepsi Max-deildar karla í knattspyrnu niður í fimm stig, vinni það Grindavík á heimavelli sínum í kvöld. Þá tekur HK á móti FH.

Toppliðin tvö voru afar jöfn fram eftir sumri en sigur KR á Blikum í 11. umferðinni í byrjun júlí gaf þeim fjögurra stiga forskot í fyrsta sinn. Það varð svo að sjö stiga forskoti eftir tap Blika fyrir HK í næsta leik á eftir. KR-ingar, sem unnu átta leiki í röð, gerðu hins vegar 2:2 jafntefli við Stjörnuna í gærkvöldi og því geta Blikar minnkað forskotið niður í fimm stig með sigri gegn Grindavík.

Liðin mættust í fyrstu umferðinni suður með sjó og þá vann Breiðablik 2:0 sigur. Grindvíkingar eru nú með 13 stig í 9. sætinu, jafn mörg og Víkingur og KA í sætunum fyrir neðan, og eru því komnir í mikla fallbaráttu eftir þrjú jafntefli í röð.

Tapi Blikar hins vegar þá getur FH jafnað þá að stigum með sigri gegn HK í Kórnum. FH-ingar eru nú í sjötta sæti en geta stokkið hátt upp töfluna með sigri. HK er í áttunda sætinu með 14 stig, en FH vann fyrri leik liðanna 2:0 á heimavelli.

Leikir kvöldsins:
19.15 Breiðablik – Grindavík
19.15 HK – FH

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert