Stjarnan til Sviss eða Færeyja?

Guðmundur Steinn Hafsteinsson og félagar í Stjörnunni slógu Levadia Tallinn ...
Guðmundur Steinn Hafsteinsson og félagar í Stjörnunni slógu Levadia Tallinn frá Eistlandi út í 1. umferðinni á dramatískan hátt. mbl.is/Árni Sæberg

Ef Stjörnumönnum tekst að koma gríðarlega á óvart og slá út spænska liðið Espanyol í 2. umferð Evrópudeildarinnar í fótbolta bíður þeirra ferðalag til Sviss eða Færeyja í þriðju umferðinni.

Rétt í þessu var lokið við að draga til 3. umferðarinnar en hún verður leikin dagana 8. og 15. ágúst. Stjarnan leikur við Espanyol í Barcelona í 2. umferðinni á fimmtudaginn kemur, 25. júlí, og í Garðabæ fimmtudaginn 1. ágúst.

Sigurliðið í einvíginu mætir sigurliðinu í einvígi Luzern frá Sviss og KÍ frá Klaksvík í Færeyjum. Óhætt er að segja að Espanyol og Luzern séu afar sigurstrangleg í 2. umferðinni.

mbl.is