Stjarnan hrósaði sigri á Gothia Cup

Sigurlið Stjörnunnar á Gothia Cup.
Sigurlið Stjörnunnar á Gothia Cup. Ljósmynd/Heimasíða mótsins

Eitt stærsta ungmennamót heims í knattspyrnu, Gothia Cup, fór fram í Gautaborg í Svíþjóð um helgina. Alls tóku um 1.700 lið þátt í mótinu, þar af fjölmörg frá Íslandi, og þar náði Stjarnan eftirtektarverðum árangri.

Lið frá þriðja flokki Stjörnunnar stóð þá uppi sem sigurvegari í keppni 15 ára drengja eftir sigur á sænska liðinu Haninge í úrslitaleik, 3:0. Stjarnan vann sjö af átta leikjum sínum í keppninni fram að úrslitaleiknum, en hann var leikinn á 18 þúsund manna velli í Gautaborg.

Sigur Stjörnunnar var öruggur, en Haninge hafði ekki fengið á sig eitt einasta mark fram að úrslitaleiknum. Fyrstu tvö mörkin skoruðu Ísak Andri Sigurgeirsson og Adolf Daði Birgisson, áður en Ísak Andri skoraði sitt annað mark og tryggði Stjörnunni 3:0-sigur og titilinn um leið.

Óli Valur Ómarsson var valinn maður leiksins í úrslitaleiknum, sem nánar má lesa um HÉR.

mbl.is