Tárvotur af velli en útlitið betra

Arnór Sigurðsson hefur skorað eitt mark í fyrstu fimm leikjunum …
Arnór Sigurðsson hefur skorað eitt mark í fyrstu fimm leikjunum með CSKA í rússnesku úrvalsdeildinni á nýju tímabili.

Betur fór en á horfðist hjá Arnóri Sigurðssyni, landsliðsmanninum unga í fótbolta, er hann meiddist í leik með CSKA Moskvu gegn Sochi á sunnudaginn.

Arnór meiddist eftir harkalegt návígi og kvaddi völlinn tárvotur, á 28. mínútu leiksins. Meiðslin eru á ökkla og óttast var að þau væru alvarleg.

Sigurður Sigursteinsson, faðir Arnórs, segir hins vegar frá því við Fótbolta.net að meiðslin séu ekki mjög alvarleg. Arnór sé búinn í myndatöku og það skýrist betur í vikunni hve lengi hann verði frá keppni, en það ætti ekki að verða mjög langur tími.

Innan við mánuður er í næstu leiki Íslands í undankeppni EM en Ísland mætir Moldóvu 7. september á Laugardalsvelli og er miðasala á leikinn hafin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert