Fylkiskonur gætu sett strik í reikninginn

Hlín Eiríksdóttir tryggði Valskonum sigur gegn Selfossi á Selfossi í …
Hlín Eiríksdóttir tryggði Valskonum sigur gegn Selfossi á Selfossi í 14. umferð deildarinnar á miðvikudaginn síðasta. mbl.is//Hari

Fyrir utan topplið Vals er það Fylkir sem verið hefur á mestu flugi í úrvalsdeild kvenna í fótbolta undanfarið en Fylkiskonur hafa nú unnið fimm leiki í röð í deildinni og komið sér af fullum þunga í baráttuna um 3. sæti. Árbæingar gætu jafnframt orðið örlagavaldar í hnífjafnri titilbaráttu Vals og Breiðabliks.

Valur er enn með tveggja stiga forskot á Breiðablik eftir að báðum liðum tókst að kreista fram sigra í 14. umferðinni með nokkrum naumindum. Liðin mætast á Kópavogsvelli í næstsíðustu umferð og áfram er útlit fyrir að það verði eins konar úrslitaleikur um Íslandsmeistaratitilinn, þar sem Val myndi duga jafntefli. Fylkir gæti breytt þessari sviðsmynd. Valur og Breiðablik eiga eftir leiki við tvö lið úr neðsta hlutanum auk leiks við Fylki. Valur sækir Fylki heim á sunnudaginn en Breiðablik fer í Árbæinn, þar sem Fylkir hefur náð í megnið af sínum stigum, í lokaumferðinni.

Dregur til tíðinda í fallslagnum eftir taphrinur

Á sunnudag fer fram heil umferð en það er jafnframt síðasta umferðin fyrir landsleikjahlé, þar sem sjö leikmenn Breiðabliks og sjö leikmenn Vals verða í íslenska landsliðshópnum sem mætir Ungverjalandi og Slóvakíu í fyrstu leikjunum í undankeppni EM. Fylkir er þriðja liðið í deildinni sem missir leikmann af liðsæfingum sínum en hin 16 ára gamla Cecilía Rán Rúnarsdóttir er ein þriggja markvarða landsliðshópsins.

Breiðablik má illa við því að misstíga sig gegn Stjörnunni á sunnudag en Stjarnan siglir nokkuð lygnan sjó. Þór/KA og nýkrýndir bikarmeistarar Selfoss berjast, ásamt Fylki, um 3. sæti deildarinnar og mætast í mikilvægum slag á Akureyri.

Greinina má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag í dag þar sem útnefndur er leikmaður 14. umferðar, besti ungi leikmaður 14. umferðar og birt úrvalslið Morgunblaðsins úr umferðinni ásamt stöðunni í M-gjöfinni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert