Grótta ekki tapað í þrjá mánuði

Arnar Þór Helgason skoraði fyrir Gróttu og hér fagnar liðið ...
Arnar Þór Helgason skoraði fyrir Gróttu og hér fagnar liðið marki hans í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Gott gengi Gróttu í 1. deild karla í knattspyrnu, Inkasso-deildinni, heldur áfram en liðið endurheimti annað sætið með 3:1-sigri á Fram í kvöld.

Arnar Þór Helgason kom Gróttu yfir í fyrri hálfleik og um miðbik síðari hálfleiks tvöfaldaði Sölvi Björnsson forskot Seltirninga. Frederico Bello minnkaði muninn úr víti fyrir Fram áður en Sölvi innsiglaði 3:1-sigurinn með öðru marki sínu fyrir Gróttu.

Grótta er nú í öðru sætinu með 34 stig, einu á eftir toppliði Fjölnis, en Þór er í þriðja sætinu með 32 stig og getur komist á toppinn á morgun. Fram er í sjöunda sætinu með 26 stig.

Grótta hefur nú leikið 14 leiki í röð í deildinni án þess að tapa, en síðasta tapið kom gegn Leikni þann 24. maí eða fyrir þremur mánuðum síðan. Grótta hefur síðan þá unnið átta leiki og gert sex jafntefli.

Markaskorarar fengnir frá úrslit.net.

mbl.is