Pedersen klikkaði á ögurstundu

Stjörnumenn fagna fyrsta marki sínu í kvöld.
Stjörnumenn fagna fyrsta marki sínu í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Stjarnan og Valur skildu jöfn, 2:2, í hörkuleik að Hlíðarenda í Pepsi Max-deild karla í knattspyrnu. Valsmenn jöfnuðu metin þegar sjö mínútur voru eftir og Daninn Patrick Pedersen í liði Vals brenndi af vítaspyrnu á 89. mínútu. Stjarnan hefur 30 stig í 3. sæti en Valur 25 stig í 5. sæti.

Valsmenn voru með undirtökin í fyrri hálfleik. Þeir sköpuðu sér nokkrar álitlegar sóknir auk marksins sem var ákaflega einfalt í smíðum þar sem Ívar Örn Jónsson sendi boltann á fjærstöng inn í teig á Danann Patrick Pedersen sem afgreiddi boltann reyndar frábærlega í markið, 1:0, eftir sjö mínútna leik.

Stjörnumenn sóttu aðeins í sig veðrið eftir því sem á leið fyrri hálfleikinn, uppspil þeirra skánaði. Guðmundur Steinn Hafsteinsson skaut rétt framhjá á 25. mínútu en þremur mínútum síðar fékk Hilmar Árni Halldórsson boltann á milli varnarlínu og miðjulínu Vals. Fékk hann nokkuð óáreittur að miða skotfótinn og negla í hornið, 1:1 og þannig var staðan í hálfleik.

Stjörnumenn héldu uppteknum hætti í síðari hálfleik á meðan Valsmenn komust lítt áfram. Á 57. mínútu fékk Hilmar Árni á ný boltann, rak knöttinn í átt að marki Valsmanna, sendi á Sölva Snæ sem skoraði úr nokkuð þröngu færi, stöngin inn. Staðan 2:1, en Sölvi var að skora í sínum öðrum leik í röð.

Á 72. mínútu komu Stjörnumenn knettinum í netið. Markið var dæmt gilt en mikil reikistefna greip um sig skömmu síðar. Á endanum fór fór Helgi Mikael Jónasson til Bryngeirs Valdimarssonar, aðstoðardómara, sem flaggaði ekki rangstöðu þegar atvikið átti sér stað. Eftir spjall þeirra félaga var markið dæmt ógilt.

Á 83. mínútu fékk Ívar Örn Jónsson á ný boltann í vinstri bakvarðarstöðunni, lagði hann fyrir sig og setti inn í teig á milli markvarðar og varnarlínu. Andri Adolfsson lúrði á fjær og setti í autt markið, 2:2.

Á 88. mínútu slapp varamaðurinn Kristinn Ingi Halldórsson inn fyrir vörn Stjörnunnar, fór framhjá Haraldi Björnssyni, markverði Stjörnunar, sem tók Kristinn niður. Mínútu síðar steig Patrick Pedersen á punktinn en brást bogalistin á ögurstundu. Haraldur Björnsson gerði raunar afar vel að verja spyrnu Danans sem var ekki hin versta.

Við tóku fjörugar og blóðheitar lokamínútur en niðurstaðan 2:2 jafntefli.

Valur 2:2 Stjarnan opna loka
90. mín. Leik lokið
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert