Tími til að binda enda á „bikarþurrðina“

Davíð Þór Viðarsson og Sölvi Geir Ottesen, fyrirliðar FH og …
Davíð Þór Viðarsson og Sölvi Geir Ottesen, fyrirliðar FH og Víkings R. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Davíð Þór Viðarsson, fyrirliði FH, er spenntur fyrir bikarúrslitaleik við Víking R. á laugardaginn. FH hefur slegið út Val, ÍA og KR í sumar og því farið erfiðu leiðina í úrslitin. Bikarinn er eini möguleiki FH á titli í sumar. 

„Þetta er búið að vera mjög skemmtilegt bikarsumar hingað til og við höfum slegið út mjög sterk lið á leiðinni í úrslitin. Við bíðum spenntir eftir leiknum og þetta er okkar tækifæri á titli í sumar og við ætlum okkur að sjálfsögðu að vinna hann,“ sagði Davíð í samtali við mbl.is. 

FH hefur meiri reynslu af leikjum af þessari stærðargráðu, en Davíð segir það ekki endilega hjálpa, eins og sýndi sig í tapi FH-inga gegn ÍBV í bikarúrslitum fyrir tveimur árum. 

„Við vorum líka vanari því að spila úrslitaleiki árið 2017 á móti ÍBV og ekki hjálpaði það okkur þar. Fyrir okkur snýst þetta um að vera rétt stilltir og átta okkur á hversu stórt og skemmtilegt verkefni þetta er. Ef við gerum það mæta menn mjög tilbúnir til leiks og við eigum mjög góða möguleika á að klára þetta.“

FH hefur verið í fremstu röð í íslenskum fótbolta í meira en áratug. Tvö ár eru síðan liðið vann síðast titil og það er langur tími hjá FH-ingum. 

„Þetta eru tvö ár án titils, það hefur ekki gerst síðan við unnum fyrsta titilinn árið 2004. Það er alveg kominn tími til að binda enda á „bikarþurrðina“.“

Vona Kára vegna að þetta sé ekki slæmt

Óvíst er með þátttöku Kára Árnasonar í leiknum, þar sem hann fór meiddur af velli í landsleik við Albaníu á þriðjudaginn var. 

„Kári er frábær leikmaður og hans innkoma í Víkingsliðið  hefur gefið þeim aukakraft, en hvort sem hann verður með eða ekki, þá leysa Víkingarnir það. Þeir eru komnir með breiðan hóp. Þetta verður alvöruleikur tveggja góðra liða. Maður óskar þess aldrei að einhver meiðist og missi af svona leik. Þetta er skemmtilegasti leikur sumarsins á Íslandi og ég vona Kára vegna að þetta hafi ekki verið jafn slæmt og þetta leit út fyrir að vera.“

Tímabil FH átti á hættu að fara mjög illa fyrr í sumar. Liðið var neðarlega í töflunni og fékk mikla gagnrýni. Nú hefur FH unnið fimm af síðustu sex leikjum og á möguleika á titli. 

„Það sem breyttist hjá okkur er að við unnum tvo leiki; ÍA og Val. Fyrir Skagaleikinn vorum við búnir að tapa tveimur í röð og spiluðum ekki sérstaklega vel í þeim leik en náðum að kreista fram sigur. Um leið og þú nærð að snúa þessu við færðu mikinn aukakraft og meiri trú á verkefninu. Við höfum verið mjög góðir upp á síðkastið og við verðum að gjöra svo vel og halda áfram að gera það sem við höfum verið að gera á síðustu vikum. Þá hef ég enga trú á öðru en þessi bikarúrslitaleikur fari vel og við náum að klára tímabilið með mikilli sæmd,“ sagði Davíð Þór. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert