Ég fékk létt að finna fyrir því

Víkingur Reykjavík er bikarmeistari 2019.
Víkingur Reykjavík er bikarmeistari 2019. mbl.is/Árni Sæberg

Guðmundur Andri Tryggvason var áberandi í liði Víkings sem varð bikarmeistari í fótbolta í kvöld. Víkingur hafði betur gegn FH í úrslitum Mjólkurbikarsins á Laugardalsvelli og var Andri kampakátur í leikslok. 

„Mér líður rosalega vel. Mér fannst við vera miklu betri og mér fannst þessi sigur verðskuldaður. Arnar var mjög sáttur með okkur eftir fyrri hálfleikinn og vildi meira af því sama. Við gerðum það, sýndum góðan karakter og náðum í víti og skoruðum.“

FH pressaði nokkuð á Víking undir lokin, en tókst ekki að jafna. „Það kom einhver smá stresskafli þegar þeir sóttu og sóttu en við komumst í gegnum það sem betur fer.“

Pétur Viðarsson fékk beint rautt spjald fyrir að traðka á bringunni á Andra eftir klukkutíma leik. Hann var ekki viss um hvort um réttan dóm hefði verið að ræða. 

„Það er erfitt að segja. Ég er að elta boltann og hann flækist og fer með löppina í bringuna á mér. Dómarinn sér það og hendir honum út af. Ég fékk létt að finna fyrir því í leiknum,“ sagði Guðmundir Andri. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert