Davíð Þór leggur skóna á hilluna eftir tímabilið

Davíð Þór Viðarsson í baráttu við Birki Má Sævarsson.
Davíð Þór Viðarsson í baráttu við Birki Má Sævarsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Davíð Þór Viðarsson, fyrirliði FH, hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna eftir tímabilið en hann staðfestir þetta í samtali við vefmiðilinn 433.is í dag.

„Ég hætti eftir þetta tímabil, þetta er síðasta árið. Ég hefði viljað hætta með titli, þetta var mjög svekkjandi um helgina,“ segir Davíð Þór í viðtali við 433.is en FH tapaði fyrir Víkingi í úrslitaleik Mjólkurbikarkeppninnar um síðustu helgi.

„Ég er 35 ára og mín hugsun hefur verið að hætta á meðan maður getur eitthvað. Þessi ákvörðun hefur verið í hausnum á mér síðasta árið, ég tel þetta góðan tímapunkt,“ segir Davíð Þór.

Davíð Þór hefur sjö sinnum fagnað Íslandsmeistaratitlinum með FH og hefur verið lykilmaður Hafnarfjarðarliðsins í mörg ár. Hann reyndi fyrir sér í atvinnumennsku og lék með Lilleström í Noregi, Lokeren í Belgíu, sænska liðinu Öster og danska liðinu Vejle en sneri aftur til FH fyrir sex árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert