Geggjað að spila fyrir Arnar Gunnlaugs

Erlingur Agnarsson í baráttunni við Helga Val Daníelsson í Árbænum …
Erlingur Agnarsson í baráttunni við Helga Val Daníelsson í Árbænum í kvöld. mbl.is/Hari

„Ég er fyrst og fremst svekktur með þetta tap hér í kvöld,“ sagði Erlingur Agnarsson, leikmaður Víkings, í samtali við mbl.is eftir 3:1-tap liðsins gegn Fylki í úrvalsdeild karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, á Würth-vellinum í Árbænum í 20. umferð deildarinnar í kvöld.

„Við vorum staðráðnir í að koma hingað og taka þrjú stig. Við vildum sýna fólki að við værum ekki saddir eftir þennan bikarúrslitaleik og markmiðið fyrir leikinn var að enda í fjórða sæti deildarinnar þannig að þetta er ákveðið svekkelsi fyrir okkur. Mér fannst við vera með ákveðna yfirburði í leiknum í seinni hálfleik en síðan hættum við að láta boltann ganga og byrjum að flengja honum fram. Þannig hleypum við þeim aftur inn í leikinn og við getum í raun bara kennt sjálfum okkur um.“

Víkingar voru lengi í gang í kvöld en Erlingur vill alls ekki meina að það hafi verið einhver bikarþynnka í liðinu sem tryggði sér bikarmeistaratitilinn á laugardaginn síðasta eftir 1:0-sigur gegn FH í úrslitaleik á Laugardalsvelli.

„Mér fannst við ekki vera að díla við einhverja bikarþynnku. Við æfðum vel á bæði mánudaginn og þriðjudaginn og vorum staðráðnir í að koma hingað og ná í þrjú stig. Mér leið mjög vel í leiknum, ég var ferskur allan tímann, og mér fannst allt liðið í raun vera tilbúið í leikinn.“

Erlingur steig sín fyrstu skref með meistaraflokki Víkings árið 2015 en sumarið í ár er hans fyrsta alvörutímabil með liðinu þar sem hann hefur verið fastamaður í öllum leikjum Víkings.

„Það er geggjað að spila fyrir Arnar Gunnlaugsson. Hann vill spila skemmtilegan fótbolta og hann hefur sett saman frábært lið í sumar. Að taka titil á sínu fyrsta alvörutímabili í meistaraflokki með uppeldisfélaginu er í raun ólýsanlegt og framtíðin er björt í Víkinni,“ sagði Erlingur í samtali við mbl.is.

mbl.is