Sumarið ótrúlega skemmtilegt

KR-ingar fögnuðu á Meistaravöllum í dag.
KR-ingar fögnuðu á Meistaravöllum í dag. mbl.is/Hari

„Ég er alveg rosalega stoltur af þessum,“ sagði sigurreifur Arnór Sveinn Aðalsteinsson eftir að KR-ingar tóku á móti Íslandsbikarnum í knattspyrnu. KR sigraði FH 3:2 í 21. umferð Pepsi-Max deildarinnar og bikarinn fór á loft að leik loknum.

„Þetta er eitt allra skemmtilegasta sumar sem ég hef tekið þátt í. Hópurinn er frábær og það er búið að byggja upp gott lið sem er svo skemmtilegt. Það eru allir klárir að gera eitthvað hver fyrir annan,“ sagði Arnór.

Hann segir að fyrir sig persónulega sé þetta mjög sætt og að hann hafi gengið í gegnum ýmislegt til að ná þessum árangri. „Aðdragandinn hefur verði langur og þegar hann kemur loksins í hús er eiginlega erfitt að lýsa því.“

Arnór hlær þegar blaðamaður segir að líklega hafi ekki margir búist við því að hann og Finnur Tómas yrðu miðverðir í besta liðinu á landinu. „Þetta óvænta gerir sportið svo skemmtilegt. Það var óvænt að ég, sem hef ekki spilað miðvörð mikið, og Finnur Tómas, ungur strákur, mynduðum svona sterkt par. Það er skemmtilegt,“ sagði Arnór og hló.

Arnór, sem varð Íslandsmeistari með Breiðabliki árið 2010 og er býsna sjóaður í boltanum, segir að það sé þægilegt leika við hlið hins 18 ára Finns Tómasar.

„Hann er rosalega rólegur og yfirvegaður og hlustar vel. Hann er með blöndu af „mér er alveg sama“ og metnað sem virðist virka. Það er held ég það sem gerir hann að þessum góða leikmanni. Það myndu ekki allir 18 ára guttar koma svona vel inn í liðið.“

Samningur Arnórs rennur út eftir tímabilið en hann gerir fastlega ráð fyrir því að vera áfram hjá KR á næsta tímabili og segir að Vesturbæingar geti átt von á góðu á næstu árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert