Svona eiga fótboltaleikir að vera

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkinga.
Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkinga. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

Arnar Gunnlaugsson þjálfari Víkinga var ánægður með strákana sína í dag þrátt fyrir 3:2-tap liðsins á heimavelli gegn KA í næstsíðustu umferð Pepsi Max-deildarinnar í knattspyrnu í dag.

Fyrir lokaumferðina eru nýkrýndir bikarmeistarar í 10. sætinu en sæti þeirra er tryggt þar sem Grindavík náði ekki að leggja Valsmenn að velli í dag.

„Það fer eftir því hvernig maður tapar leikjum hvort maður sé fúll eða ekki. Við fengum tvö hundruð þúsund færi í þessum leik en fórum illa að ráði okkar fyrir framan markið og því fór sem fór. Það eru gamlir draugar farnir að herja á okkur núna. Við erum að gera mistök og fá á okkur mörk en eftir svona tilfinningarríkan sigur í bikarnum á dögunum er ekkert óeðlilegt að gefa eftir og það er mitt hlutverk að laga hlutina fyrir næsta ár og gera enn betur,“ sagði Arnar í samtali við mbl.is eftir stórskemmtilega viðureign hans manna gegn KA.

„Þetta var hrikalega skemmtilegur leikur og svona eiga fótboltaleikir að vera. Liðin höfðu svo sem ekki að miklu að keppa þrátt fyrir að allir aðrir í kringum þetta hafi verið að ræða um einhvern falldraug,“ sagði Arnar.

Spurður út í stöðuna á leikmannahópnum fyrir næstu leiktíð sagði Arnar:

„Við höldum þessum hópi en eina spurningarmerkið er Guðmundur Andri. Ef ég á að vera eigingjarn þá vonast ég eftir því að geta haldið honum en hans vegna vona ég að hann fari aftur út. Hann er ótrúlega hæfileikaríkur. Stefnan er að bæta við tveimur til þremur sterkum leikmönnum í hópinn. Fótboltinn sem við höfum spilað í sumar hefur verið mjög flottur og hann gefur manni tilefni til þess að vera mjög bjartsýnn á komandi árum.

Ég hef mikla trú á því að ef við höldum okkur við það sem við höfum verið að gera núna og lögum ákveðin mistök þá séu góðir tímar í vændum. Það er auðvelt að laga þessi mistök en erfitt að laga fótboltann í heild. Ég hef verið hrikalega ánægður með strákana,“ sagði Arnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert