Heiður að mér sé treyst fyrir þessu

Heimir Guðjónsson tekur við af Ólafi Jóhannessyni.
Heimir Guðjónsson tekur við af Ólafi Jóhannessyni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er engin spurning að ég er mjög spenntur fyrir þessu verkefni. Valur er flottur klúbbur sem hefur glæsilega umgjörð, góða stuðningsmenn og hefur allt til alls,“ sagði Heimir Guðjónsson, sem verður næsti þjálfari karlaliðs Vals í knattspyrnu. Hann hefur samið við Val til fjögurra ára en Heimir hefur stýrt færeyska liðinu HB undanfarin ár og hefur gert liðið bæði að meisturum og bikarmeisturum.

„Ég tek við góðu búi af Óla Jó. Valur hefur innan sinna raða fullt af góðum fótboltamönnum en með nýjum mönnum verða alltaf einhverjar áherslubreytingar,“ sagði Heimir í samtali við mbl.is.

Eftir að hafa unnið Íslandsmeistaratitilinn tvö ár í röð gekk illa hjá Hlíðarendaliðinu á nýafstöðnu tímabili. Liðið var í tómu basli í allt sumar og var um tíma í fallsæti en endaði í sjötta sæti deildarinnar. Spurður hvort það verði ekki áskorun fyrir hann að koma Val aftur í fremstu röð sagði Heimir:

„Ég held að allir séu sammála um það að hlutirnir gengu ekki eins vel og menn hefðu viljað í sumar eftir að liðið hafði unnið fjóra titla á jafnmörgum árum. Auðvitað verður það mitt hlutverk að reyna að koma liðinu aftur á þann stað sem það á að vera. Valur er þannig klúbbur að markmiðið er alltaf sett á toppbaráttu,“ segir Heimir, sem fetar aftur í fótspor Ólafs Jóhannessonar en eftir að hafa verið aðstoðarmaður hans hjá FH tók hann við þjálfun FH-liðsins árið 2008. FH varð fimm sinnum Íslandsmeistari undir stjórn Heimis, varð einu sinni bikar­meist­ari og komst tvisvar sinn­um í um­spil um sæti í riðlakeppni Evrópudeild­ar­inn­ar.

Heimir Guðjónsson.
Heimir Guðjónsson. Ljósmynd/Facebook-síða HB

Menn vilja stöðugleika hjá Val

„Það er bara gaman og Óli hefur staðið sig afar vel hjá Val,“ sagði Heimir við mbl.is.

Heimir segist ekki vera búinn að ákveða hvern hann fær með sér sem aðstoðarþjálfara. „Það var nú bara verið að klára þetta svo ég mun setjast fljótlega niður og skoða hvaða möguleikar eru í boði. Það er alltaf þannig að þegar þú velur fólk í kringum þig þá þarf að vanda til verks,“ sagði Heimir, sem eins og áður segir semur við Valsmenn til fjögurra ára.

„Það er bara heiður fyrir mig að mér sé treyst fyrir þessu og svo er það bara mitt að standa mig. Menn vilja stöðugleika hjá Val og við vorum sammála um að gera fjögurra ára samning.“

Þrjár umferðir eru eftir af færeysku úrvalsdeildinni og ljóst er að lærisveinar Heimis í HB ná ekki að verja meistaratitilinn en liðið er í 5. sæti deildarinnar. Heimir segist hafa verið mjög ánægður með dvölina í Færeyjum.

„Það er frábært að vera hér í Færeyjum. Það hefur gengið vel og HB er virkilega flott félag. Allt þetta frábæra fólk í Færeyjum hefur reynst mér og minni fjölskyldu ákaflega vel. Þegar vel gengur eru allir ánægðir. Það hefur verið virkilega gaman að prófa þetta. Það er mikill uppgangur í færeyskum fótbolta og auðvitað hef ég lært heilmikið á þessum tveimur árum þar sem ég hef reynt að bæta mig. Þetta hafa verið tvö góð ár í reynslubankann,“ sagði Heimir.

„Ég kem heim um næstu mánaðamót og núna í framhaldinu af þessu mun ég setjast yfir hlutina og sjá hvernig best er að gera þetta og skoða leikmannamálin.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert