Tilbúinn að leysa landsliðsfyrirliðann af hólmi

Rúnar Már Sigurjónsson er einn af þeim sem gæti leyst …
Rúnar Már Sigurjónsson er einn af þeim sem gæti leyst Aron Einar Gunnarsson af hólmi á morgun þegar Frakkar koma í heimsókn. mbl.is/Hari

Rúnar Már Sigurjónsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, er líklegur kandídat til þess að leysa landsliðsfyrirliðann Aron Einar Gunnarsson af hólmi inni á miðsvæðinu á föstudaginn kemur þegar Ísland mætir heimsmeisturum Frakka í H-riðli undankeppni EM 2020. Aron Einar þurfti að draga sig úr hópnum vegna meiðsla á ökkla en Rúnar Már hefur spilað mjög vel með félagsliði sínu Astana í Kasakstan á þessari leiktíð og verið í lykilhlutverki.

„Það er geggjað að fá heimsmeistarana á Laugardalsvöll og leikurinn gegn þeim leggst afar vel í mig. Það eru einhver forföll í herbúðum Frakka, alveg eins og hjá okkur, og það hefði verið gaman að fá tækifæri til þess að kljást við Kylian Mbappé á nýjan leik enda einn besti leikmaður í heimi. Að sama skapi eiga þeir nokkra aðra leikmenn sem geta komið inn í hans stað sem eru bæði fljótir og góðir á boltann. Það breytir þess vegna ekki miklu í skipulagi okkar að hann sé ekki með. Allir leikmenn íslenska liðsins eru hins vegar klárir og ég held að þessi leikur verði frábær skemmtun.“

Rúnar viðurkennir að það sé erfitt að finna veikan blett á franska liðinu og að íslenska liðið þurfti að eiga toppleik ef liðið ætlar sér að ná í góð úrslit.

„Frakkar eru besta lið í heimi og það segir sig sjálft að það eru ekki margir veikleikar í liðinu. Við höfum vissulega mætt þeim nokkrum sinnum á undanförnum árum en aldrei á heimavelli og þar erum við alltaf sterkir. Við ætlum okkur að spila þennan leik líkt og við spilum þegar aðrar stórar þjóðir mæta hingað. Við þurfum að gefa fá færi á okkur, vera sterkir í föstum leikatriðum og vona að þeir komi með smá vanmat inn í leikinn. Eins þurfum við að mæta þeim af fullum krafti, vera fastir fyrir, harðir og brjóta aðeins á þeim. Þá vonandi detta þeir aðeins úr sínum leik og sínu skipulagi en við þurfum samt að hafa það í huga að þetta er besta lið í heimi. Það þarf þess vegna allt að ganga upp ef við ætlum okkur að ná í einhver úrslit gegn þeim.“

Ítarlegt viðtal við Rúnar Má Sigurjónsson má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins  dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »