Sigurður Ragnar til Keflavíkur

Sigurður Ragnar Eyjólfsson.
Sigurður Ragnar Eyjólfsson. mbl.is/Styrmir Kári

Sigurður Ragnar Eyjólfsson hefur verið ráðinn sem annar aðalþjálfari meistaraflokks karla hjá Knattspyrnudeild Keflavíkur til næstu þriggja ára. Hann mun starfa við hlið Eysteins Húna Haukssonar en hann hefur síðasta eina og hálfa tímabil verið aðalþjálfari og aðstoðarþjálfari þar á undan. Þetta kemur fram á vef Víkurfrétta.

Sigurður Ragnar var þjálfari kvennalandsliðsins frá 2006 til 2013 og komst liðið í tvígang í úrslitakeppni Evrópumótsins undir hans stjórn. Hann var þjálfari karlaliðs ÍBV, aðstoðarþjálfari hjá norska liðinu Lilleström, þjálfaði kínverska kvennaliðið Jiangsu Suning og var síðan þjálfari kínverska kvennalandsliðsins.

„Ég er mjög spenntur fyrir því að koma inní öflugt þjálfarateymi Keflavíkur og starfa með Eysteini við að byggja upp Keflavíkurliðið og byggja á þeim grunni sem hefur verið lagður hér síðustu ár. Það eru spennandi tímar framundan í Keflavík og ég er sannfærður um að áður en langt um líður verður liðið tilbúið til að berjast meðal þeirra bestu. Hér er mikill efniviður og gott umhverfi til að ná árangri,“ segir Sigurður Ragnar Eyjólfsson.

Keflavík hafnaði í 5. sæti í Inkasso-deildinni á síðustu leiktíð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert