Fimm spiluðu fyrsta landsleikinn í sigri

Mikael Anderson og Jonathan Osario í baráttunni í nótt.
Mikael Anderson og Jonathan Osario í baráttunni í nótt. Ljósmynd/Knattspyrnusamband Kanada

Ísland hafði betur gegn Kanada í vináttuleik, 1:0, í fyrsta leik ársins hjá A-landsliði karla í fótbolta á Orange County Great Park-vellinum í Irvine í Kaliforníu í nótt. 

Hólmar Örn Eyjólfsson skoraði sigurmarkið á 21. mínútu. Hann skoraði þá af öryggi úr teignum eftir hornspyrnu Davíðs Kristjáns Ólafssonar en úr henni fór boltinn beint í þverslána og hrökk þaðan fyrir fætur Hólmars á markteignum.

Ísland var töluvert sterkara liðið í fyrri hálfleiknum og skapaði sér fín færi. Höskuldur Gunnlaugsson var líflegur og átti skot í utanverða stöngina og Viðar Örn Kjartansson komst í gott færi í teignum, en Maxime Crépeau varði vel frá honum. Þá átti Kjartan Henry Finnbogason skot rétt fram hjá. 

Kanadamenn voru sterkari í upphafi seinni hálfleiks og þurfti Hannes Þór Halldórsson að verja í fyrsta skipti snemma í hálfleiknum, en hann greip þá örugglega frá Jonathan Osorio. Hann þurfti að taka betur á því á 87. mínútu þegar Charles-Andreas Brym slapp einn í gegn. Hannes var snöggur af línunni og varði vel. 

Varamaðurinn Kristján Flóki Finnbogason fékk besta færi Íslands í seinni hálfleik en Crépeau varði ágætt skot hans úr teignum virkilega vel. Fleiri urðu mörkin hins vegar ekki. 

Daníel Leó Grétarsson og Höskuldur Gunnlaugsson voru í byrjunarliðinu og léku sína fyrstu leiki og varamennirnir Stefán Teitur Þórðarson, Alfons Sampsted og Bjarni Mark Antonsson sömuleiðis, en þeir komu inn á í seinni hálfleik. 

Byrjunarlið Íslands.
Byrjunarlið Íslands. Ljósmynd/KSÍ
Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Kanada 0:1 Ísland opna loka
90. mín. Leik lokið Markið hjá Hólmari reyndist sigurmarkið. Gott að ná í sigur í fyrsta leik ársins.
mbl.is