Íslenskur dómari gagnrýnir kollega sinn harkalega

Róbert Örn Óskarsson markvörður FH og Kristinn Jakobsson í síðasta …
Róbert Örn Óskarsson markvörður FH og Kristinn Jakobsson í síðasta leik Kristins, FH - Stjarnan. mbl.is/Ómar Óskarsson

Garðar Örn Hinriksson, sem lengi dæmdi í efstu deildum í knattspyrnunni hérlendis, fer mikinn í pistli sem hann ritar á vefsíðu sína: Á hjali hjá Garðari Erni. Tilefnið er upprifjun Garðars á leik FH og Stjörnunnar í síðustu umferð Íslandsmóts karla árið 2014. 

Garðar gefur Kristni Jakobssyni dómara leiksins ekki háa einkunn og segir hann hafa gert stór mistök í leiknum og það oftar en einu sinni. Garðar segir einnig að aðstoðardómarinn, Sigurður Óli Þorleifsson, hafi gert stærstu mistök á sínum ferli þegar fyrra mark Stjörnunnar í leiknum fékk að standa. Garðar segir engu að síður í lok pistilsins að íslenskir fjölmiðlamenn eigi að biðja Sigurð afsökunar vegna umfjöllunar sinnar um leikinn. 

Garðar segir fjölmiðlamenn á hinn bóginn hafa farið blíðum höndum um Kristinn og hans frammistöðu og ýjar að því að slíkt hafi verið alvanalegt. Garðar veltir fyrir sér ástæðum þess og nefnir nokkra möguleika í því sambandi sem ekki lýsa beinlínis mikilli trú á þeim vinnubrögðum sem viðhöfð eru hjá íslenskum fjölmiðlum. 

Garðar segir Kristinn hafa gert mistök þegar hann dæmdi vítaspyrnu undir lok leiksins. Hann nefnir Kristni til vorkunnar að staðsetning dómarans hafi verið slík að erfitt hafi verið fyrir hann að sjá brotið. Nokkru síðar hafi komið í ljós að víti var rangur dómur segir Garðar. 

Garðar Örn Hinriksson í leik Fjölnis og Stjörnunnar.
Garðar Örn Hinriksson í leik Fjölnis og Stjörnunnar. mbl.is/Golli

Kassim Doumbia, leikmaður FH,  trylltist í leikslok og missti gersamlega stjórn á sér. Garðar segir að Doumbia hefði ekki átt að vera í sviðsljósinu undir lok leiksins eða í leikslok. Að mati Garðars hefði Doumbia átt að fá rautt spjald fyrr í leiknum og þar hafi Kristinn gert mistök. 

Sjaldgæft er að frá dómurum í íþróttunum heyrist í opinberri umræðu hérlendis. Sérsamböndin vilja yfirleitt ekki að þeir tjái sig um eigin störf eða annarra. Garðar er hins vegar hættur að dæma. Ósennilegt er að fordæmi sé fyrir slíkum skrifum hjá íslenskum dómara á opinberum vettvangi þar sem hann gagnrýnir kollega líkt og Garðar gerir í pistlinum. 

Pistill Garðars 

mbl.is