Ætlaði sér ekki í markið

Ingibjörg Valgeirsdóttir býr sig undir að verja frá Rio Hardy …
Ingibjörg Valgeirsdóttir býr sig undir að verja frá Rio Hardy í leik KR og Grindavíkur. mbl.is/Hari

Knattspyrnukonan Ingibjörg Valgeirsdóttir ætlaði sér aldrei að verða markvörður og spilaði til að mynda fyrstu leiki sína í meistaraflokki sem útileikmaður fyrir Sindra á Hornafirði í 1. deildinni, aðeins 14 ára gömul. Þjálfari taldi hana hins vegar á að reyna fyrir sér í marki og og varð þá ekki aftur snúið.

Átta árum síðar er Ingibjörg einn besti markvörður Íslandsmótsins, hún mun verja mark KR í sumar og þá hefur hún verið í síðustu tveimur A-landsliðshópum Íslands.

Ingibjörg, sem varð 22 ára í janúar, hefur verið á mála hjá KR síðan 2016 og á 39 leiki í efstu deild. KR-liðið hafnaði í 7. sæti úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð og fór alla leið í úrslit í bikarkeppninni. Þar þurftu Vesturbæingar hins vegar að þola grátlegt tap eftir framlengdan leik gegn Selfyssingum. Ingibjörg telur það tap geta orðið liðinu aukna hvatningu í sumar, en hún bíður spennt eftir að mótið hefjist loks í næsta mánuði.

„Við höfum verið að æfa vel og getum núna eftir helgi loks farið að æfa aftur með eðlilegum hætti. Ég myndi segja að standið á liðinu sé mjög gott. Við munum svo spila einhverja æfingaleiki og þá einn í þessari viku en svo spilum við aðallega innbyrðis, áður en mótið hefst,“ sagði Ingibjörg í samtali við Morgunblaðið um helgina. „Þjálfararnir þekkja þetta auðvitað best en við hlökkum til að byrja aftur.“ KR mætir Val í fyrstu umferð föstudagskvöldið 12. júní.

Blásið til sóknar í Vesturbæ

KR-ingar hafa styrkt sig vel fyrir baráttuna í sumar og samið við öfluga og reynda leikmenn. Katrín Ásbjörnsdóttir sneri aftur til uppeldisfélagsins eftir að hafa verið í barneignarfríi á síðasta keppnisári, en hún varð Íslandsmeistari með bæði Þór/KA og Stjörnunni ásamt því að spila í Noregi. Þá er Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir einnig búin að skipta yfir í Vesturbæinn, úr Þór/KA, en báðar eru þær reyndir leikmenn með landsleiki að baki. Þá hafa þær Lára Kristín Pedersen og Kristín Erla Sigurlásdóttir einnig gengið til liðs við KR og því ljóst að liðið er gríðarlega vel í stakk búið fyrir mótið, sem verður þéttspilað í sumar. KR-ingar hafa meira og minna verið í fallbaráttu ár hvert frá því að liðið komst aftur í deild hinna bestu árið 2014 en félagið ætlar sér aðra og betri hluti í sumar.

Viðtalið í heild má lesa í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert