Er frá æfingum vegna höfuðáverka

Andri Adolphsson.
Andri Adolphsson. mbl.is/Arnþór Birkisson

Andri Adolphsson, leikmaður Vals í Pepsí Max deildinni í knattspyrnu, er enn að glíma við afleiðingar af höfuðhöggi sem hann fékk í leik í febrúar. 

Fótbolti.net birtir í dag viðtal við Andra þar sem hann lýsir heilsufarinu sem ekki er nægilega gott þrátt fyrir að þrír mánuðir séu liðnir. 

„Í fyrstu lítur þetta ekkert illa út. Ég dett ekkert út og get svarað öllum spurningum sem sjúkraþjálfarinn spurði, heilahristingspróf,“ er haft eftir Andra en svo seig á ógæfuhliðina. 

„Ég mæti í vinnu mánudaginn eftir þetta. Ég vinn við tölvu og á þá erfitt með að lesa af skjánum og sé hálf óskýrt og nánast tvöfalt til að byrja með.“

Til stóð að Andri myndi hefja æfingar að nýju fyrir þremur vikum síðan en hafði ekki heilsu til þegar á reyndi. 

Samkvæmt leiðbeiningum um vinnubrögð við höfuðáverkum í íþróttum skal trappa íþróttamanninn smám saman upp í æfingaálagi ef ekkert bakslag verður. En bakslagið kom hjá Andra í því ferli og nú er staðan metin frá degi til dags að hans sögn. 

„Þetta er svo rosalega persónulega bundið hvernig þetta er. Þeir þora ekki að gefa mér neinn tímaramma.“

mbl.is