Meistarabikarinn á Selfoss

Leikmenn Selfoss fagna í dag.
Leikmenn Selfoss fagna í dag. mbl.is/Sigurður Unnar

Fyrirliði Selfyssinga, Anna María Friðgeirsdóttir, reyndist hetja liðsins þegar Selfoss og Valur mættust í Meistarakeppni kvenna í knattspyrnu á Origo-vellinum á Hlíðarenda í dag. Leiknum lauk með 2:1-sigri Selfyssinga en Anna María skoraði sigurmark leiksins þegar tíu mínútur voru til leiksloka.

Valskonur byrjuðu leikinn betur og strax á 3. mínútu fékk Hlín Eiríksdóttir sannkallað dauðafæri þegar Hallbera Guðný Gísladóttir átti frábæra fyrirgjöf frá vinstri á Hlín sem var ein fyrir opnu marki en kantmaðurinn hitti ekki boltann. Valskonur héldu áfram að ógna Fanndís Friðriksdóttir fékk tvö ágætis tækifæri til þess að koma Valskonum yfir en Kaylan Marckese í marki Selfyssinga sá við henni í bæði skiptin.

Á 21 .mínútu átti Elín Metta Jensen frábært skot með vinstri, utarlega í teignum, en boltinn söng í stönginni. Fjórum mínútum síðar fengu Selfyssingar sitt fyrsta og eina tækifæri í fyrri hálfleik þegar Clara Sigurðardóttir átti frábæra fyrirgjöf inn í teiginn en Sandra Sigurðardóttir varð skalla Dagnýjar Brynjarsdóttur af stuttu færi. Leikurinn róaðist mikið eftir þetta en Valskonur voru þá með öll völd á vellinum.

Elín Metta Jensen kom Valskonum yfir á 37. mínútu þegar Hallbera Guðný átti flotta skiptingu frá vinstri yfir til hægri á Hlín Eiríksdóttur. Hlín fór illa með varnarmenn Selfoss, lagði boltann fyrir markið á Elínu Mettu, sem tók boltann með vinstri og setti hann í vinstra hornið. Markið virtist vekja Selfyssinga sem fóru að sækja meira eftir markið, án þess þó að skapa sér afgerandi marktækifæri, og staðan því 1:0 í hálfleik.

Það tók Selfyssinga einungis sjö mínútur að jafna metin í upphafi fyrri hálfleiks en þar var á ferðinni Tiffany McCarty. Framherjinn fékk þá boltann innan teigs með tvo varnarmenn Vals í bakinu. Hún snéri á þá báða, lagði boltann fyrir sig og setti hann yfir Söndru í marki Valskvenna í fjærhornið og staðan allt í einu orðin 1:1. Fjórum mínútum síðar komast Fanndís Friðriksdóttir ein gegn markmanni Selfyssinga en skot hennar fór framhjá.

Á 70. mínútu átti Hlín Eiríksdóttir hörkuskot að marki Selfyssinga sem Kayla varði vel. Frákastið datt fyrir Elínu Mettu en skot hennar, fyrir nánast opnu marki, lak framhjá. Tíu mínútum síðar átti Anna María Friðgeirsdóttir, fyrirliði Selfyssinga, skot að marki af 30 metra færi. Sandra í marki Valskvenna misreiknaði boltann afar illa, missti hann yfir sig, og Selfyssingar því allt í einu komnir 2:1-yfir og reyndist það sigurmark leiksins.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Valur 1:2 Selfoss opna loka
90. mín. 3+ mínútur í uppbótartíma.
mbl.is