Víkingar stóðu loks við stóru orðin

Daníel Hafsteinsson úr FH og Halldór Smári Sigurðsson úr Víkingi …
Daníel Hafsteinsson úr FH og Halldór Smári Sigurðsson úr Víkingi í baráttu um boltann í Fossvogi í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson

Víkingur R. vann FH 4:1 á Víkingsvelli í Fossvoginum í kvöld í þriðju umferð Íslandsmóts karla í knattspyrnu í kvöld. Þetta var fyrsti sigur Víkinga á mótinu sem eru nú með fimm stig en FH-ingar eru með sex eftir að hafa unnið fyrstu tvo leiki sína.

Víkingar voru uppfullir af stóryrðum í upphafi móts og ekki í neinum feluleik með ætlunarverk sitt í sumar; að blanda sér í toppbaráttuna af einhverri alvöru á Íslandsmótinu. Það voru því nokkur vonbrigði að sjá til þeirra í fyrstu tveimur umferðunum. Þeir gerðu dapurt 1:1-jafntefli í Fossvoginum gegn nýliðum Fjölnis í fyrstu umferðinni og svo markalaust jafntefli fyrir norðan gegn KA viku síðar. Eftir þessa byrjun var pressan strax komin og kannski ekki eftirsóknarvert að mæta stórliði FH í þriðju umferð, sem hafði unnið báða fyrstu leikina sína. Eða hvað?

https://www.mbl.is/sport/efstadeild/2020/06/29/veit_ekki_einu_sinni_hvort_eg_hafi_hugsad/

Víkingar byrjuðu leikinn í kvöld af krafti og hleyptu Hafnfirðingum varla yfir miðju fyrsta stundarfjórðunginn. Óttar Magnús Karlsson braut svo ísinn á 26. mínútu með glæsilegu skallamarki, stýrði boltanum í nærhornið af nærstönginni eftir ágæta fyrirgjöf Ágústs Eðvalds Hlynssonar beint úr aukaspyrnu.

Forystan var svo tvöfölduð á 39. mínútu þegar Víkingar spiluðu vörn FH í sundur og saman. Davíð Örn Atlason og Erlingur Agnarsson áttu þríhyrningsspil fyrir utan vítateig og á endanum var sá fyrrnefndi sloppinn í gegn, lagði boltann fyrir sig og þrumaði honum í nærhornið, framhjá Gunnari Nielsen í marki FH.

Ótrúlegur Óttar

Það dró svo heldur betur til tíðinda í uppbótartíma fyrri hálfleiks þegar Óttar Magnús skoraði sitt annað mark og það þriðja fyrir Víkinga. Heimamenn fengu þá aukaspyrnu við endalínuna, hægra megin á vellinum. Sú ákvörðun Péturs Guðmundssonar dómara fór eitthvað í taugarnar á FH-ingum og í stað þess að vera vakandi fóru þeir að skammast í dómaranum, þar á meðal Nielsen sem skyldi þá líka markið eftir autt. Óttar Magnús var eldsnöggur að átta sig, rúllaði boltanum laust og hnitmiðað í galopið markið. Staðan orðin 3:0 og FH-ingar voru heldur betur fýldir, létu dómara kvöldsins heyra það.

Hálfleiksræða Ólafs Kristjánssonar, þjálfara FH, var stutt. Hafnfirðingar voru varla gengnir til búningsklefa þegar þeir voru komnir aftur inn á völlinn og ekki erfitt að ímynda sér hver skilaboð þjálfarans voru. Og þau virtust nú vera snögg að skila sér. Hörður Ingi Gunnarsson fiskaði vítaspyrnu fyrir gestina á 50. mínútu og Steven Lennon minnkaði muninn með öruggri spyrnu. Ágúst Eðvald Hlynsson var dæmdur brotlegur en það var þó nokkuð ljóst að Hörður sótti þetta víti, hann ætlaði aldrei að standa í lappirnar eftir að hann potaði boltanum framhjá Ágústi.

FH-ingar komust þó ekki nær og Víkingar áttu eftir að eiga síðasta orðið. Óttar Magnús innsiglaði þrennu sína á 84. mínútu með föstu skoti utan teigs og heimamenn tóku stigin þrjú. Og kærkomin stig þau voru fyrir yfirlýsingaglaða Víkinga sem hafa nú loksins komist á blað og það með því að vinna stórleik sannfærandi.

Það er nú upp undir þeim komið að halda dampi og spila svona áfram en þeir heimsækja næst Íslandsmeistara KR. FH-ingar þurfa að rífa sig upp eftir afar dapurt kvöld. Pétur Viðarsson var einn þeirra besti maður þegar hann var tekinn af velli snemma leiks eftir slæmt höfuðhögg og því ólíklegt að hann verði klár í slaginn. Að vísu á FH ekki leik fyrr en 8. júlí gegn Breiðabliki en búið er að fresta næsta leik Hafnfirðinga sem átti að vera gegn Stjörnunni á sunnudaginn.

mbl.is/Arnþór Birkisson
Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Víkingur R. 4:1 FH opna loka
90. mín. Sex mínútur í uppbótartíma.
mbl.is