Einn sá ótrúlegasti á Nesinu

Ásgeir Börkur Ásgeirsson úr HK reynir skot að marki Gróttu …
Ásgeir Börkur Ásgeirsson úr HK reynir skot að marki Gróttu í dag. Patrik Orri Pétursson er til varnar. mbl.is/Sigurður Ragnarsson

Grótta og HK mættust í ótrúlegum knattspyrnuleik á Vivaldi-vellinum á Seltjarnarnesi í 4. umferð Pepsi Max-deildar karla. Komst Grótta tvívegis tveimur mörkum yfir, en HK jafnaði í bæði skiptin og urðu lokatölur 4:4, en Gróttumenn léku manni færri frá 37. mínútu. 

Gróttumenn byrjuðu af miklum krafti og Pétur Theódór Árnason var búinn að koma liðinu yfir eftir aðeins 90 sekúndur er hann kláraði vel af stuttu færi eftir flotta fyrirgjöf Axels Sigurðssonar. Var markið það fyrsta sem Grótta skorar í efstu deild frá upphafi. 

Axel sá sjálfur að gera annað mark Gróttu er hann slapp í gegn eftir stórglæsilega sendingu Kristófers Orra Péturssonar og kláraði glæsilega framhjá Sigurði Hrannari Björnssyni í marki HK. 

HK-ingar fengu hinsvegar líflínu á 37. mínútu þegar Birnir Snær Ingason komst í fínt skotfæri og lét vaða, endaði boltinn í hendinni á Patrik Orra Péturssyni sem fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt og HK fékk víti. Atli Arnarson fór á punktinn og skoraði af öryggi og var staðan í hálfleik 2:1. 

HK-ingar voru fljótir að nýta sér liðsmuninn í seinni hálfleik. Birkir Valur Jónsson átti sendingu á Arnþór Ara Atlason á fimmtu mínútu seinni hálfleiks og Arnþór skilaði boltanum í bláhornið með fallegu skoti og staðan 2:2. 

Eftir jöfnunarmarkið voru Gróttumenn hinsvegar miklu betri aðilinn og komust verðskuldað yfir á 62. mínútu er Ástbjörn Þórðarson skoraði með fallegu skoti eftir hornspyrnu. Fjórða mark Gróttu kom sömuleiðis eftir hornspyrnu en þá skallaði Karl Friðleifur Gunnarsson í bláhornið á 65. mínútu og tíu Gróttumenn komnir tveimur mörkum yfir. 

HK-ingar gáfust ekki upp því á 75. mínútu komst Valgeir Valgeirsson upp hægri kantinn og sendi fyrir á óvaldaðan Arnþór Ara sem átti ekki í vandræðum með að skora sitt annað mark í leiknum.

Átta mínútum síðar var staðan orðin jöfn. Ásgeir Börkur Ásgeirsson slapp í gegnum vörn Gróttu, skaut að marki en Hákon varði en missti boltann frá sér og Ari Sigurpálsson fylgdi eftir og skoraði af mjög stuttu færi. 

Hvorugt liðið náði að skapa sér gott færi það sem eftir lifði leiks og niðurstaðan því jafntefli í ótrúlegum leik. 

Leikurinn er einn sá ótrúlegasti sem undirritaður hefur séð. Gróttumenn spiluðu gríðarlega vel, áður en vítið og rauða spjaldið riðaði leik liðsins. Óttuðust eflaust margir það versta þegar HK jafnar snemma í seinni hálfleik en Grótta gerði einstaklega vel í því að komast tveimur mörkum yfir á ný, manni færri. Andleysið hjá HK-ingum var algjört í kjölfar þess að þeir jafna í 2:2. HK á ekki að fá á sig tvö mörk manni fleiri gegn Gróttu. 

Það ber hinsvegar að hrósa HK sömuleiðis fyrir að leggja ekki árar í bát og tvisvar ná að jafna eftir að hafa lent tveimur mörkum undir. HK-ingar voru hinsvegar bölvaðir klaufar í að koma sér í þá stöðu. Jafntelfi eru sennilega sanngjörn úrslit í leik þar sem hvorugt liðið átti skilið að tapa. 

Grótta 4:4 HK opna loka
90. mín. Guðmundur Þór Júlíusson (HK) fær gult spjald Of seinn í Hákon og straujar markvörðinn sem liggur eftir.
mbl.is