Á að byrja alla leiki

Eiður Aron Sigurbjörnsson hefur verið lykilmaður í liði Vals undanfarin …
Eiður Aron Sigurbjörnsson hefur verið lykilmaður í liði Vals undanfarin þrjú ár. mbl.is/Kristinn Magnússon

Eiður Aron Sigurbjörnsson, varnarmaður Vals, hefur verið að glíma við meiðsli á ökkla og var hann ekki í leikmannahóp liðsins þegar Valur fékk ÍA í heimsókn í 4. umferð úrvalsdeildar karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildarinnar, á Origo-völlinn á Hlíðarenda á föstudaginn síðasta.

Eiður var heill heilsu þegar tímabilið hófst þann 13. júní síðastliðinn með leik Vals og KR á Hlíðarenda en hann byrjaði á bekknum í leiknum.

Miðvörðurinn öflugi kom hins vegar inn á sem varamaður á 30. mínútu fyrir Danann Rasmus Christiansen en Eyjamaðurinn fékk högg á ökklann í leiknum og hefur því misst af síðustu þremur leikjum liðsins vegna þessa.

„Ég var að koma af aukaæfingu núna þar sem við prófuðum einhverjar 80. mínútur og það gekk mjög vel,“ sagði Eiður Aron í samtali við mbl.is í dag. „Ég fann ekki fyrir neinum sársauka sem er jákvætt. Mér líður vel eftir æfinguna og ég tel að ég sé klár í 90. mínútur eins og staðan er í dag.

Ég tók svipaða æfingu fyrir leikinn gegn ÍA á föstudaginn síðasta þar sem ég æfði allt nema spil. Ég fann ekki heldur fyrir neinum sársauka eftir þá æfingu. Þá er ég er búinn að vera gera alskyns æfingar sem reyna á ökklann en þótt ég finni ekki fyrir neinum óþægindum þá er hann ennþá bólginn sem er nett pirrandi en á meðan það er lítill sem enginn verkur þá kvartar maður ekki,“ sagði Eiður Aron sem á að baki 144 leiki í efstu deild þar sem hann hefur skorað 6 mörk.

Valsmenn fengu skell gegn ÍA í síðustu umferð.
Valsmenn fengu skell gegn ÍA í síðustu umferð. mbl.is/Arnþór Birkisson

Lífið frekar glatað

Eiður Aron var ekki í byrjunarliðinu gegn KR í fyrsta leik tímabilsins og viðurkennir að það hafi farið í taugarnar á sér.

„Ég var klár og tilbúinn í slaginn í fyrsta leik en ég áttaði mig á því fljótlega eftir að við byrjuðum að spila æfingaleiki eftir samkomubann að ég væri ekki að fara byrja upphafsleikinn gegn KR. Lífið var frekar glatað eftir það en að sama skapi var lítið sem maður gat gert í því, annað en að halda áfram.

Varnarmaðurinn öflugi var í stúkunni gegn ÍA þar sem Valur tapaði 4:1 en hann vonast til þess að byrja næsta leik gegn Víkingum á miðvikudaginn.

„Þetta var ekki gott á móti ÍA ef við segjum það bara eins og það er. Að sama skapi hefði leikurinn getað þróast öðruvísi ef við hefðum skorað úr þessum fjölda færi sem við fengum í fyrri hálfleik.

Auðvitað finnst mér ég eiga að byrja alla leiki, sama hvort að liðið sé að vinna eða tapa, og vonandi fær maður tækifæri á miðvikudaginn,“ bætti Eiður Aron við í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert