Hafa sem betur fer margir skoðun á þessari íþrótt

Þóroddur Hjaltalín dæmir leik Vals og Breiðabliks árið 2018.
Þóroddur Hjaltalín dæmir leik Vals og Breiðabliks árið 2018. mbl.is/Árni Sæberg

Mikil umræða hefur verið um dómgæsluna á Íslandsmótinu í knattspyrnu í sumar en dómarar hafa legið undir nokkurri gagnrýni undanfarið. Fyrrverandi dómarinn Jóhannes Valgeirsson er einn þeirra sem hefur lýst óánægju með framistöðu dómara á samfélagsmiðlum og þá hefur Þóroddur Hjaltalín, formaður dómaranefndar KSÍ, kallað eftir málefnalegri umræðu.

Þóroddur ræddi við Valtý Björn Val­týs­son í út­varpsþætt­in­um Mín skoðun á Sport FM í gær. „Það eru allir með það markmið að gera þetta vel, sama hvort það erum við í nefndinni, starfsmenn KSÍ eða dómararnir okkar. Það eru allir með mikinn metnað fyrir því sem þeir eru að gera,“ sagði Þóroddur við Valtý. „Mér finnst það stundum vanta í þessa umræðu en ég skil auðvitað umræðuna vel, hún á fyllilega rétt á sér. Það hafa sem betur fer ansi margir skoðanir á þessari íþrótt, sem er geggjað.“

Þóroddur viðurkennir að starfið er ekki fullkomið og nefnir t.d. að sumir dómarar í efstu deild hafi ekki alveg þá reynslu sem æskileg væri.

„Auðvitað væri það óskastaða að efsta deild væri dæmd af mönnum með tíu ára reynslu í dómgæslu. En þeir sem hafa verið að fylgjast með vita að við höfum verið að missa hratt út mikla reynslubolta. Kannski hafa þeir sem koma í staðinn farið dálítið hratt í gegnum þetta, að því sögðu hafa þeir strákar staðið sig heilt yfir mjög vel.“

„Þegar ég var að byrja að dæma hérna fyrir norðan, þá fór ég á Ólafsfjörð, Siglufjörð, Húsavík, Dalvík og Sauðarkrók og gerði mín mistök en það vissi það enginn nema þeir sem voru á vellinum! Það er komið internetið, sem var ekki þegar ég var að byrja. Það gerir starfið erfiðara, þetta utanaðkomandi áreiti kemur við menn.“

Jóhannes Valgeirsson, fyrrverandi dómari.
Jóhannes Valgeirsson, fyrrverandi dómari. Ljósmynd/Ómar Óskarsson
mbl.is