Eitt versta tapið á 40 ára ferli

Erik Hamrén var sársvekktur í leikslok.
Erik Hamrén var sársvekktur í leikslok. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þetta er eitt versta tap sem ég hef lent í og ég hef verið þjálfari í 40 ár og tapað fullt af leikjum. Ég er gríðarlega vonsvikinn,“ sagði afar svekktur Erik Hamrén þjálfari íslenska knattspyrnulandsliðsins eftir afar svekkjandi 0:1-tap fyrir Englandi í Þjóðadeildinni í dag. 

Raheem Sterling skoraði sigurmarkið úr víti á lokamínútunni og tókst Birki Bjarnasyni ekki að jafna metin úr víti hinum megin í uppbótartíma. 

„Ég vorkenni leikmönnum. Við vissum að við þyrftum að vinna vel sem heild og þeir gerðu það mjög vel. Við gerðum þetta saman. Stig hefði verið sigur fyrir okkur en við fengum ekkert. Leikmennirnir gerðu frábærlega en fengu ekkert fyrir.“

Hamrén var svo spurður um vítaspyrnudómana tvo. „Ég sá ekki vítaspyrnudóminn þeirra þar sem ég stóð. Ég talaði við leikmennina og þeir segja að þetta sé ekki víti. Ég sá vítaspyrnuna okkar því ég var í betra sjónarhorni og mér fannst það rétt. Ég get ekkert talað um vítaspyrnuna sem England fékk," sagði Svíinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert