Ótrúleg mörk í Árbænum

Fylkir og Þór/KA eigast við í dag.
Fylkir og Þór/KA eigast við í dag. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Fylkir vann 4:2-sigur á Þór/KA í ótrúlegum leik í 15. umferð Pepsi Max-deildar kvenna í knattspyrnu í Árbænum í dag. Mörkin voru mörg hver skrautleg; annaðhvort glæsileg eða einkar klaufaleg.

Arna Sif Ásgrímsdóttir kom gestunum í forystu á 11. mínútu þegar hún skallaði boltann af löngu færi framhjá nokkrum varnarmönnum áður en hann lak hreinlega í markið. Klaufalegt var það en markið gilti. Eva Rut Ásþórsdóttir jafnaði svo metin fyrir heimakonur á 19. mínútu með glæsilegu marki. Lét vaða utan teigs og stýrði boltanum hnitmiðað í bláhornið uppi, vinstra megin.

Síðari hálfleikurinn byrjaði illa fyrir norðankonur. Margrét Árnadóttir fékk beint rautt spjald strax í upphafi hans fyrir að gefa Cecilíu Rán Rúnarsdóttur í marki Fylkis olnbogaskot. Heimakonur nýttu svo liðsmuninn vel, tóku forystuna á 62. mínútu þegar Þórdis Elva Ágústsdóttir skoraði af stuttu færi eftir fasta fyrirgjöf frá Berglindi Rós Ágústsdóttur.

Fimm mínútum síðar jafnaði Þór/KA aftur, og aftur var markið af klaufalegri gerðinni. Hulda Björg Hannesdóttir tók aukaspyrnu nálægt miðju, lyfti boltanum inn í teig. Cecilía Rán kom út úr marki Fylkis, missti af boltanum og þaðan rann hann í autt markið. Heimakonur töldu að á Cecilíu hefði verið brotið en ekkert var dæmt.

Fylkiskonur voru hins vegar eldsnöggar að endurheimta forystuna. Bryndís Arna Níelsdóttir stangaði knöttinn í netið af stuttu færi eftir frábæra fyrirgjöf frá Berglindi frá hægri, önnur stoðsending hennar í leiknum. Þær gerðu svo gott sem út um leikinn á 78. mínútu með fjórða markinu. Bryndís skoraði annað mark sitt eftir mistök frá Lauren Allen í marki Þór/KA er hún gaf beint á Bryndísi, sem skoraði yfir hana í autt markið.

Cecilía Rán er einn efnilegasta markvörður landsins en hún er bara fædd 2003 og á auðvitað ýmist ólært. Hún er hávaxin og öflug í markteignum sínum en kannski full hvatvís. Hún rauk út úr stöðu í síðari marki norðankvenna, fór í skógarferð, og fékk það í bakið. Vissulega vinnur hún oftast þessi einvígi, en þarna gerði hún það ekki og gaf mark.

Berglind Rós er hins vegar svo sannarlega miðjumaður. Hún hefur verið að spila sem hafsent í sumar, og reyndar á síðustu leiktíð líka, en var færð á miðjuna í dag og það gekk heldur betur upp. Fyrirliðinn lagði upp tvö mörk og var vafalaust besti leikmaður vallarins, stýrði spilinu vel og var yfirleitt viðloðinn sóknir Fylkiskvenna.

Fylkir er nú með 16 stig, í 4. sæti en fyrir neðan Selfyssinga á markatölunni einni. Þór/KA er búið að tapa fjórum í röð, er í 7. sæti með 11 stig, tveimur stigum frá fallsæti.

Fylkir 4:2 Þór/KA opna loka
90. mín. Leik lokið Verðskuldaður sigur Fylkis í skrautlegum og fjörugum leik.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert