Toppliðin unnu öll

Fred Saraiva skoraði annað mark Fram í dag en hér …
Fred Saraiva skoraði annað mark Fram í dag en hér er hann í fyrri leik liðanna í sumar. mbl.is/Íris

Fjórum leikjum í 18. umferð Lengjudeildar karla í knattspyrnu var að ljúka rétt í þessu en umferðin hófst á leik Keflavík og Vestra í gærkvöldi og lýkur síðar í dag á viðureign Grindavíkur og Magna. Topplið Keflavíkur vann sinn leik í gær, 3:1.

Leiknir úr Reykjavík er áfram í öðru sæti eftir 3:0-heimasigur á Aftureldingu í Breiðholtinu. Máni Austmann Hilmarsson, Vuk Dimitrijevic og Ágúst Leó Björnsson skoruðu mörk heimamanna sem unnu sannfærandi sigur og eru með 36 stig eftir 18 leiki, stigi á eftir Keflavík sem á leik til góða.

Fram fylgir svo fast á hæla Leiknis en Safamýrarliðið gerði sér góða ferð norður á Akureyri, vann 2:0-sigur á Þórsurum og er í 3. sæti, einnig með 36 stig en lakari markatölu. Alexander Már Þorláksson kom Fram yfir snemma leiks og Fred Saraiva, nýkominn úr tveggja leikja banni, bætti svo við um stundarfjórðung fyrir leikslok en Sveinn Elías Jónsson, fyrirliði Þórsara, fékk rautt spjald undir lok leiksins.

ÍBV hélt toppbaráttuvonum sínum á lífi með 3:0-sigri á Þrótturum í Laugardalnum en þetta var fyrsti sigur Eyjamanna í sjö leikjum. Jón Jökull Hjaltason kom þeim yfir og Jack Lambert bætti við tveimur mörkum. ÍBV er í 4. sæti með 30 stig eftir 18 leiki. Þróttur úr Reykjavík er í 10. sæti með 12 stig.

Þá lyftu Víkingar úr Ólafsvík sér frá fallbaráttunni með 4:2-útisigri á Leikni úr Fáskrúðsfirði en Víkingar eru með 19 stig í 9. sætinu og Leiknir í fallsæti með 12 stig. Kristófer Jacobson Reyes, Gonzalo Zamorano og Harley Willard komu gestunum í þriggja marka forystu en Arka­diusz Jan Grzelak minnkaði muninn í 3:2 með tveimur mörkum eftir að Emmanuel Keke fékk rautt spjald í liði gestanna. Zamorano bætti hins vegar við marki undir lokin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert