Slakir FH-ingar gerðu nóg gegn botnliðinu

Steven Lennon og Sigurpáll Melberg Pálsson í fyrri leik liðanna …
Steven Lennon og Sigurpáll Melberg Pálsson í fyrri leik liðanna í sumar. mbl.is/Sigurður Ragnarsson

FH vann nauman 1:0-sigur á Fjölni í Pepsi Max-deild karla í fótbolta á Kaplakrikavelli í Hafnarfirði í dag. Skoraði danski varamaðurinn Morten Beck Guldsmed sigurmarkið átta mínútum fyrir leikslok. Voru FH-ingar nokkuð heppnir að fagna sigri þar sem spilamennskan var ekki sérstaklega góð gegn baráttuglöðum Fjölnismönnum. 

Leikurinn var rólegur framan af og lítið um færi. Fjölnismenn vörðust vel og gáfu fá færi á sér á meðan þeir reyndu að sækja hratt þegar færin gáfust. Ólafur Karl Finsen fékk besta færi hálfleiksins en hann skallaði beint á Atla Gunnar Guðmundsson í marki Fjölnis af stuttu færi í blálok hálfleiksins. 

Fjölnismenn byrjuðu seinni hálfleikinn vel og voru töluvert meira með boltann og settu pressu á FH-inga. Gekk gestunum hinsvegar illa að skapa sér færi. 

Leikurinn lifnaði loksins við 25 mínútum fyrir leikslok. Jóhann Árni Gunnarsson var nálægt því að skora fyrsta markið fyrir Fjölni en hann setti boltann í slánna með hörkuskoti. Örskömmu síðar skaut Jónatan Ingi Jónsson í stöng hjá FH og Atli Gunnar varði vel frá Baldri Loga Guðlaugssonar í kjölfarið. 

Fyrsta markið kom loksins átta mínútum fyrir leikslok þegar varamaðurinn Logi Tómasson sendi boltann á kollinn á öðrum varamanni Morten Beck Guldsmed úr hornspyrnu og Daninn skoraði af stuttu færi og kom FH yfir. 

FH-ingar geta miklu betur

FH hefur oft spilað betur en í dag. Liðið skapaði sér sárafá færi gegn sigurlausum Fjölnismönnum og hafði Atli Gunnar Guðmundsson lítið að gera í marki gestanna. Miðjumennirnir studdu lítið við sóknarmennina og Steven Lennon var lítið í boltanum og Ólafur Karl Finsen náði sér ekki á strik. Þá átti Hörður Ingi Gunnarsson erfiðan dag á þungum vellinum. 

Einn besti leikmaður FH í leiknum var hinn 16 ára gamli Logi Hrafn Róbertsson en hann lék allan tímann í hjarta varnarinnar og leit út eins og reynslubolti. Ljóst er að Logi er gríðarlega efnilegur og getur náð langt. Þá komu þeir Logi Tómasson og Morten Beck Guldsmed sterkir á bekknum og er breidd FH-inga mun meiri en hjá Fjölni. FH þarf hinsvegar að spila betur en þetta til að halda í annað sætið út leiktíðina. 

Duglegir en skortur á gæðum

Fjölnismenn lögðu gríðarlega mikið á sig í leiknum og börðust eins og ljón allan tímann. Þeir áttu álitlegar sóknir inn á milli, en illa gekk að skapa verulega gott færi. Það vantar ekki dugnaðinn í strákana hans Ásmundar Arnarssonar, en gæðin eru einfaldlega ekki til staðar til að halda sætinu í deildinni. Leikmannahópurinn er einfaldlega ekki nægilega góður. 

Sjálfstraustið er lítið sem ekkert hjá Fjölnismönnum og það kom sennilega fáum á óvart að FH hafi skorað sigurmarkið að lokum. Þetta hefur verið þannig sumar fyrir Fjölni. Það er orðið nokkuð ljóst að Grafarvogsliðið fellur úr deildinni og nú hlýtur markmiðið að vera að vinna í það minnsta einn leik áður en liðið kveður deild þeirra bestu. Það er eitt að falla og annað að falla án þess að vinna einn einasta leik. 

FH 1:0 Fjölnir opna loka
90. mín. Björn Daníel Sverrisson (FH) fær gult spjald Brot á miðjum vellinum. Fjölnismenn senda alla fram og ætla að setja langan bolta í teiginn.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert