Drengirnir áttu frábæran leik í dag

Arnar Þór Viðarsson fyrir leik.
Arnar Þór Viðarsson fyrir leik. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta er búnn að vera sérstakur sólarhringur en jafnframt skemmtilegur. Maður hafði engan tíma til að fagna sigrinum í gær,“ sagði Arnar Þór Viðarsson þjálfari U21 árs landsliðs karla í fótbolta á fréttamannafundi eftir 1:2-tap fyrir Belgum í Þjóðadeild UEFA.

Arnar var á hliðarlínunni hjá A-landsliðinu í dag í fjarveru Eriks Hamréns og Freyr Alexanderssonar sem eru í sóttkví. Þar var hann ásamt Davíð Snorra Jón­as­syni, þjálf­ara U17 landsliðs karla, sem og Þórði Þórðar­syni, þjálf­ara U19 landsliðs kvenna. Arnar var fyrir aðeins rúmum sólarhring í Lúxemborg að stýra U21 árs liðinu til 2:0-sigurs í undankeppni EM. 

„KSÍ vildi kalla mig heim til að vera í teyminu með Davíð og Þórði. Fyrir mig breytti það stöðunni, ég þurfti að hoppa upp í bíl og fara strax af stað. Þetta var ótrúlega gaman að fá að vera með strákunum inn í klefa. Drengirnir áttu frábæran leik í dag og geta verið stoltir. Leikurinn var mjög vel settur upp hjá Erik og Frey og bið gátum fylgt góðu plani,“ sagði Arnar en Ísland lék vel þrátt fyrir tapið. 

Íslenska liðið stillti upp þremur miðvörðum í dag og þá aðallega til að reyna að stöðva gott sóknarlið Belga. „Við tókum þá ákvörðun að spila þetta á móti þeim. Það rosalega erfitt að spila á móti Belgum. Þeir spila 3-4-3 og eru sniðugir að finna svæði á milli miðjunnar og varnarinnar. Það er erfitt að verjast þessu en við náðum því ágætlega þrjá miðverði og þrjá á miðjunni. Við hefðum mátt skapa 1-2 góð færi í viðbót og þá hefði þessi leikur verið nánast fullkominn,“ sagði Arnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert