Landsliðsþjálfarinn má ekki fara í Kringluna

Arnar Þór Viðarsson stýrir íslenska landsliðinu í kvöld ásamt Davíð …
Arnar Þór Viðarsson stýrir íslenska landsliðinu í kvöld ásamt Davíð Snorra Jónassyni, þjálfara U17 ára landsliðs Íslands. mbl.is/Kristinn Magnússon

Arnar Þór Viðarsson, þjálfari U21-árs landsliðs Íslands í knattspyrnu, mun stýra A-landsliði Íslands í kvöld þegar liðið fær Belgíu í heimsókn á Laugardalsvöll í Þjóðadeild UEFA.

Erik Hamrén og Freyr Alexandersson, þjálfari liðsins, eru í sóttkví vegna kórónuveirunnar og geta því ekki verið á hliðarlínunni í kvöld.

Arnar Þór er á leið til landsins frá Lúxemborg þar sem hann stýrði íslenska U21-árs landsliðinu til sigurs gegn Lúxemborg í gær í undankeppni EM en leiknum ytra lauk með 2:0-sigri Íslands.

Arnar fer í vinnusóttkví við komuna til landsins og hefur fengið leyfi frá yfirvöldum til þess að stýra íslenska liðinu á Laugardalsvelli.

„Þeir aðilar sem koma til landsins í tengslum við knattspyrnuleik fara í vinnusóttkví sem þýðir að þeir mega sinna sinni vinnu,“ sagði Klara Bjartmarz, framkvæmdastýra KSÍ, í samtali við Fótbolta.net í dag.

„Þetta er sama með dómara, eftirlitsmenn, starfsmenn UEFA og belgíska liðið. Hann hefur heimild til að vera í vernduðu umhverfi. Hann má ekki fara í Kringluna en hann má vera á skilgreindu svæði eins og Laugardalsvelli,“ bætti Klara við í samtali við fótbolta.net.

Þá fá þeir Hamrén og Freyr að vera í glerbúri á Laugardalsvelli til þess að fylgjast með leiknum eftir að hafa fengið undanþágu frá Almannavörnum.

„Við höfum fengið staðfestingu á þetta er heimilt. Þeir verða í sóttkví á vellinum. Þeir verða með sér inngang, sér salerni og munu ekki umgangast neinn annan á vellinum.

Báðar þessar ákvarðanir voru bornar undir yfirvöld og teknar í samráði við fulltrúa heilbrigðisyfirvalda,“ sagði Klara í samtali við fótbolta.net.

Fá að vera á vell­in­um þrátt fyr­ir sótt­kví

mbl.is