Af hverju sluppu landsliðsmenn við sóttkví?

Jón Daði Böðvarsson, Birkir Már Sævarsson og Albert Guðmundsson fagna …
Jón Daði Böðvarsson, Birkir Már Sævarsson og Albert Guðmundsson fagna marki Birkis gegn Belgum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórhallur Dan Jóhannsson, knattspyrnuþjálfari og fyrrverandi leikmaður, er allt annað en sáttur við framkvæmd leik Íslands og Belgíu í Þjóðadeild UEFA en leikurinn fór fram á Laugardalsvelli á miðvikudaginn var og lauk með 2:1-sigri Belga. Þórhallur ræddi við Valtý Björn Valtýsson í Mín skoðun á Sport FM.

Þórhallur furðaði sig á því að leikmenn íslenska liðsins þurftu ekki að fara í sóttkví eftir að Þorgrímur Þráinsson greindist með kórónuveiruna en Þorgrímur fagnaði með leikmönnum eftir sigurinn á Rúmenum viku fyrr.

Þá skildi hann lítið í þeirri ákvörðun að leyfa landsliðsþjálfurunum Erik Hamrén og Frey Alexanderssyni að vera á vellinum, en þeir voru í glerbúri á efri hæðum Laugardalsvallar. Einnig setti hann spurningamerki við að Arnar Þór Viðarsson fengi að stýra liðinu á hliðarlínunni, en hann var þá nýkominn til landsins eftir ferð til Lúxemborgar með U21 árs landsliðinu.

„Ef þessar reglur gilda um einn, eiga þær að gilda um allar,“ sagði Þórhallur m.a. og var heitt í hamsi, en hann er sjálfur nýkominn til landsins og er því í sóttkví. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert