Skora á KSÍ að klára tímabilið

Guðni Bergsson, formaður KSÍ.
Guðni Bergsson, formaður KSÍ. mbl.is/Hari

Níu knattspyrnufélög sem leika í 1. deild karla, 2. deild karla og 3. deild karla hafa skorað á Knattspyrnusamband Íslands, KSÍ, að klára yfirstandandi tímabil.

KSÍ mun taka ákvörðun í dag eða á morgun um framhald Íslandsmótsins í knattspyrnu en æfinga- og keppnisbann ríkir á höfuðborgarsvæðinu þessa dagana vegna kórónuveirufaraldursins.

Flestir gera ráð fyrir því að lítið muni breytast í þeim efnum á næstu dögum en núverandi sóttvarnareglur eru í gildi til 19. október næstkomandi.

Knattspyrnufélög í landinu skiptast í tvær fylkingar þegar kemur að því að klára tímabilið en liðin sem hafa skorað á KSÍ eru öll í harðri topp- eða fallbaráttu í sínum deildum.

Yfirlýsinguna má sjá í heild sini hér en hún birtist fyrst á vefmiðlinum 433.is.

Eftirfarandi félög hvetja KSÍ að halda Íslandsmótum í knattspyrnu áfram til 1. desember n.k. Skoðun okkar er að það á að klára öll mót svo að allir njóti sanngjarnrar lokaniðurstöðu.

Hreyfingin mun bera mikinn skaða af því að hlusta eingöngu á raddir félaga sem halda uppi áróðri í fjölmiðlum um bestu niðurstöðu sinna félaga í öllum deildum Íslandsmótsins.

Í reglugerð KSÍ um viðmiðanir og sértækar ráðstafanir vegna heimsfaraldurs kórónaveiru (Covid-19) segir í gr. 4.4. Öllum leikjum í Íslandsmótum skal vera lokið eigi síður en 1. desember 2020 og verður einstökum leikjum eða mótum meistaraflokka ekki frestað aftur fyrir þann tíma.

Félög sem senda þessa yfirlýsingu eru:
Álftanes
Fram
Haukar
Leiknir F.
Magni
Njarðvík
Víðir
Vængir Júpíters
Þróttur V.

mbl.is