Erfitt en ekki óyfirstíganlegt

Sara Björk Gunnarsdóttir í baráttunni við Kosovare Asllani og Önnu …
Sara Björk Gunnarsdóttir í baráttunni við Kosovare Asllani og Önnu Anvegård á Laugardalsvelli í september. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ásthildur Helgadóttir, fyrrverandi landsliðsfyrirliði Íslands, segir að íslenska landsliðið í knattspyrnu eigi fyrir höndum erfiðan en spennandi leik gegn Svíum í Gautaborg.

Svíþjóð og Ísland mætast í úrslitaleik um efsta sæti F-riðils undankeppni EM kvenna í á Ullevi-vellinum í Gautaborg í dag klukkan 17:30 að íslenskum tíma.

Svíþjóð er með 16 stig í efsta sæti riðilsins eftir sex spilaða leiki en íslenska liðið er með 13 stig en á leik til góða á Svíþjóð.

Ásthildur Helgadóttir, fyrrverandi landsliðsfyrirliði Íslands, ræddi leikinn við Valtý Björn Valtýsson í hlaðvarpsþættinum Minni skoðun á Sport FM en Ásthildur lék 69 landsleiki fyrir Ísland á árunum 1993 til ársins 2007.

„Þetta er rosalega spennandi leikur,“ sagði Ásthildur í samtali við Mína skoðun.

„Þetta verður erfitt en alls ekki óyfirstíganlegt. Mér fannst stelpurnar sýna það hérna heima að þær þurfa aðeins að fínpússa sig og þá er þetta vel hægt.

Auðvitað verður þetta tæpt og allt það en ég hef fulla trú á þeim í þessu verkefni,“ bætti Ásthildur við.

Þá á Ásthildur von á að yngri leikmenn liðsins fái traustið eins og í fyrri leiknum gegn Svíum hér heima á Laugardalsvelli í september.

„Auðvitað treystum við á ungu leikmennina í þessu og þær hafa fengið traustið að undanförnu sem þær hafa fyllilega staðið undir.

Það er vissulega ákveðin ábyrgð sett á þeirra herðar en það er líka bara fínt,“ sagði Ásthildur meðal annars.

Hægt er að hlusa á þáttinn í heild sinni með því að smella hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert