Leikur áfram með Selfyssingum næstu tvö ár

Barbára Sól Gísladóttir.
Barbára Sól Gísladóttir. Ljósmynd/UMF Selfoss

Selfyssingar hafa samið við landsliðskonuna ungu Barbáru Sól Gísladóttur um að leika áfram með þeim næstu  tvö tímabil í fótboltanum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Selfyssingum. Barbára hefur spilað 67 deildaleiki fyrir Selfyssinga þó hún sé aðeins 19 ára gömul og 50 þeirra í úrvalsdeildinni. Hún var valin í A-landsliðið í fyrsta skipti síðasta haust og lék þá tvo landsleiki. Áður hafði hún leikið 36 leiki fyrir yngri landslið Íslands.

Selfoss hefur lánað Barbáru til skoska úrvalsdeildarliðsins Celtic og mun hún leika með liðinu fram á vor, þangað til keppni hefst á Íslandsmótinu.

„Ég er mjög ánægð með að framlengja á Selfossi, hér er frábært umhverfi fyrir leikmenn og ég mun klárlega halda áfram að bæta mig hérna. Markmiðið er auðvitað að verða enn betri leikmaður, spila fleiri landsleiki og vera í hópnum sem fer á Evrópumeistaramótið sumarið 2022. Um leið er ég glöð með að félagið leyfði mér að fara á láni til Skotlands. Það er mjög spennandi að fara út og öðlast reynslu í nýju landi. Ég sleppi undirbúningstímabilinu á Selfossi en það verður geggjað að komast í fótbolta í vetur og ég mæti aftur fersk þegar tímabilið byrjar hérna heima,“ segir Barbára Sól í tilkynningunni frá Selfyssingum.

mbl.is