Báðar tillögurnar um Íslandsmótið felldar

Úr leik KR og Vals á Íslandsmótinu síðasta sumar.
Úr leik KR og Vals á Íslandsmótinu síðasta sumar. mbl.is/Árni Sæberg

Íslandsmótið í knattspyrnu mun haldast óbreytt eftir að tvær tillögur um lagabreytingu sem sneru að lengingu tímabilsins í efstu deild karla voru felldar á 75. ársþingi Knattspyrnusambands Íslands í dag.

Kosið var um tvær tillögur til lagabreytingar á þinginu, sem haldið var rafrænt, í dag. Annars vegar var tillaga frá stjórn KSÍ, byggð á vinnu starfshóps, um að hafa áfram 12 lið í úrvalsdeild en skipta henni í tvennt eftir hinar venjulegu 22 umferðir. Hvert lið fengi þá fimm aukaleiki; efstu sex liðin myndu mætast innbyrðis í úrslitakeppni og neðstu sex sömuleiðis.

Alls greiddu 124 atkvæði um tillögu KSÍ. Með tillögunni voru 68 en á móti 56. Tillagan fékk því um 54% stuðning og var felld en til þess að breyta lögum KSÍ þarf samþykki 2/3 hluta greiddra atkvæða.

Þá var tillaga um lagabreytingu frá Knattspyrnudeild Fram um að fjölga liðum í efstu deild úr 12 í 14 og leika áfram tvöfalda umferð. Alls greiddu atkvæði 122, með tillögu Fram greiddi 71 atkvæði en á móti var 51 atkvæði. Tillagan fékk því aðeins 58,2% fylgi og var felld.

Þá höfðu Fylkir og ÍA dregið sínar tillögur til baka áður en gengið var til kosninga. Fylkismenn vildu fækka liðum í úrvalsdeild niður í tíu og spila þrefalda umferð en Skagamenn vildu halda 12 liðum og spila þrefalda umferð.

mbl.is