„Einhverjir sem vilja að ég hafi búið þetta til“

Guðjón Þórðarson.
Guðjón Þórðarson. Ómar Óskarsson

Guðjón Þórðarson, fyrrverandi landsliðsþjálfari, hefur svarað fyrir ummæli sín um ósætti milli Eiðs Smára Guðjohnsen, núverandi aðstoðarlandsliðsþjálfara, og Gylfa Þórs Sigurðssonar.

Guðjón hafði látið í veðri vaka í hlaðvarpsþættinum The Mike Show að ósætti þeirra í millum væri ástæðan fyrir fjarveru Gylfa í landsleikjaglugganum sem lauk í gær.

Í nýjasta þætti The Mike Show ræddi Guðjón málið. Hugi Halldórsson þáttastjórnandi spurði hann þá hvort hann hefði vaknað með þessa flugu í hausnum á sunnudagsmorgun.

„Þetta var búið að heyrast, það var búið að suða um þetta í nokkra daga. Ég velti þessu bara upp og bar þetta áfram í spurnarformi. Ég er ekki að búa þetta til,“ sagði Guðjón og bætti við:

„Það eru einhverjir sem vilja það að ég hafi búið þetta til en þetta bjó ég ekki til og ég meira að segja talaði um að það væri ágreiningur eða núningur. Núningur er minnsta ágreiningsefnið samkvæmt íslenskri orðabók.

Ég tók það líka fram í tali mínu að ef það væri um einhvern núning að ræða þá yrði KSÍ að vinna í því að leysa það. Ég hvatti þá til þess, að ef svo væri, að leysa það. En þetta var ekki eitthvað sem ég ataði upp eða dreymdi að ætti að eiga sér stað.“

Gylfi þvertók fyrir einhvern ágreining milli sín og Eiðs Smára og sagði ástæðuna fyrir fjarveru sinni einungis þá að eiginkona hans ætti von á frumburði þeirra innan tíðar og hann hygðist vera viðstaddur fæðinguna.

„Ef það er núningur þá ber að reyna að laga það. Ef það er ekki, þá fagna ég því, það eru bara hreinar línur. Gylfi er búinn að skera úr um að það sé ekki og ég er bara feginn að heyra að það sé ekki. Þetta eru tveir toppnáungar báðir tveir. Eiður með frábæran feril og nú í þjálfarateyminu og Gylfi er einn besti landsliðsmaður allra tíma,“ sagði Guðjón einnig.

mbl.is