Ætla að gera mig að þýskri vél

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir er á mála hjá þýska stórveldinu Bayern …
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir er á mála hjá þýska stórveldinu Bayern München. Eggert Jóhannesson

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, gekk til liðs við þýska stórveldið Bayern München í janúar á þessu ári. Hún segist nú þegar hafa lært mikið á skömmum tíma en að hún eigi sömuleiðis margt ólært.

„Þetta er búið að vera mjög lærdómsríkt. Mjög skemmtilegt en krefjandi. Að búa ein í fyrsta skipti, nýtt tungumál, nýjar stelpur, nýtt lið. Ég er búin að læra rosalega mikið á þessum stutta tíma og það verður skemmtilegt að sjá hvað gerist í framtíðinni,“ sagði Karólína Lea á teams-fjarfundi með blaðammönnum í dag.

Spurð hvort hún hafi bætt sig eftir að hafa gengið til liðs við Bayern sagði Karólína Lea: „Það er mikil áhersla lögð á ýmsa hluti og alltaf verið að kenna mér eitthvað nýtt. En sérstaklega er ég að bæta líkamlega þáttinn.

Það er verið að reyna að vinna í því að gera mig að einhverri þýskri vél, ég er með heimavinnu frá líkamsræktarsalnum hjá félaginu. Ég á margt ólært en Þjóðverjarnir ætla að kenna mér mjög margt, ég hef séð það.“

Saknaði Steina mikið

Henni líst vel á nýjan þjálfara landsliðsins, Þorstein Halldórsson, enda þekkir hún hann ansi vel eftir að hafa unnið með honum undanfarin ár hjá Breiðabliki.

„Mér líst mjög vel á þetta. Það er spennandi að fá nýjan þjálfara þótt sumir þekki hann frekar vel. Ég er búin að sakna hans mjög mikið! Nei nei, það er búið að vera mjög skemmtilegt hérna og ekkert verið að slaka á hjá Steina, hann er með frábærar áherslur,“ sagði Karólína Lea.

Sara Björk Gunnarsdóttir fyrirliði og Dagný Brynjarsdóttir, reynsluboltar af miðjunni, verða ekki með í vináttulandsleikjunum gegn Ítalíu á morgun og á þriðjudaginn.

„Það er auðvitað erfitt að missa reynda leikmenn en ég hef engar áhyggjur. Það eru bara aðrir sem stíga upp og taka ábyrgð. Þetta er gott tækifæri fyrir okkur sem komum í staðinn. Við munum reyna að ná í góð úrslit gegn Ítalíu og byggja ofan á það,“ sagði Karólína Lea.

mbl.is