Lánaður frá Árósum til Stjörnunnar

Magnus Anbo í leik með AGF.
Magnus Anbo í leik með AGF. Ljósmynd/AGF

Danski knattspyrnumaðurinn Magnus Anbo er á leið til Stjörnunnar og spilar með Garðabæjarliðinu sem lánsmaður frá danska úrvalsdeildarliðinu AGF til 30. ágúst. 

Anbo er tvítugur bakvörður, sem einnig getur leikið á miðjunni, en hann hefur verið í röðum AGF frá 2015 en kom inn í meistaraflokkshóp félagsins fyrir tveimur árum. Hann hefur aðeins fengið tækifæri í tíu leikjum með aðalliði AGF, sjö þeirra í úrvalsdeildinni, en hefur nú framlengt samning sinn við félagið sem ætlar honum að fá meiri reynslu með því að spila í nokkra mánuði í íslensku úrvalsdeildinni.

Frá þessu er greint á heimasíðu AGF og þar kemur fram að gott samstarf hafi verið á milli AGF og Stjörnunnar á síðustu árum. „Fulltrúar félaganna hafa heimsótt hvorir aðra og í framtíðinni vonumst við eftir því að geta deilt þekkingu og reynslu og hjálpað hvort öðru með leikmenn," segir Jacob Nielsen, stjórnarmaður í AGF, við heimasíðuna.

Fram kemur að Anbo hafi farið til Íslands síðdegis í dag og sé á leið í stutta sóttkví, en geti síðan tekið þátt í lokaundirbúningi Stjörnunnar fyrir Íslandsmótið.

mbl.is