Meistararnir sýndu styrk í Kaplakrika

Valsmenn ganga af velli í Kaplakrika í gær.
Valsmenn ganga af velli í Kaplakrika í gær. mbl.is/Sigurður Ragnarsson

Manni færri í sjötíu mínútur náðu Íslandsmeistarar Vals að jafna og krækja í gott stig á einum erfiðasta útivelli deildarinnar, gegn FH í Kaplakrika í gærkvöld.

Óhætt er að segja að Hlíðarendaliðið hafi sýnt styrk sinn við þessar erfiðu aðstæður, í uppgjöri tveggja efstu liðanna frá síðasta tímabili. Haukur Páll Sigurðsson fyrirliði var rekinn af velli eftir aðeins 20 mínútna leik og verður fyrir vikið í banni gegn HK á fimmtudag.

Ágúst Eðvald Hlynsson kom FH yfir með sínu fyrsta marki fyrir félagið. Reyndar var það Hörður Ingi Gunnarsson sem skaut í afturendann á honum og þaðan þeyttist boltinn í Valsmarkið.

Sigurður Egill Lárusson jafnaði fyrir Val 20 mínútum fyrir leikslok, 1:1, og Valsmenn eru nú ósigraðir í sextán leikjum í röð í deildinni, síðan þeir töpuðu 1:4 fyrir ÍA á Hlíðarenda 3. júlí síðasta sumar.

Keflvíkingar fögnuðu sínum fyrsta sigri í efstu deild í tæp sex ár þegar þeir lögðu Stjörnuna verðskuldað á heimavelli sínum, 2:0.

Þeir unnu síðast leik í deildinni í lokaumferðinni 2015, gegn Leikni R., en voru þá þegar fallnir. Keflavík lék á ný í deildinni 2018 en vann ekki leik og þetta var því fyrsti sigur félagsins í 24 leikjum í deildinni.

Þetta er hinsvegar versta byrjun Stjörnunnar frá árinu 2000 en liðið hefur ekki verið án marka eftir tvær umferðir í deildinni frá þeim tíma.

M-gjöfina úr leikjum helgarinnar í Pepsí Max deild karla í knattspyrnu er að finna í umfjöllun Morgunblaðsins sem kom út í morgun. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert