Fínt hjá okkur en svekkt

Hulda Björg Hannesdóttir fyrirliði Þórs/KA.
Hulda Björg Hannesdóttir fyrirliði Þórs/KA. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Ég segi að þetta hafi verið fínt hjá okkur en er svekkt,“  sagði Hulda Björg Hannesdóttir fyrirliði Þórs/KA eftir 3:1 tap fyrir Breiðabliki þegar liðin áttust við í lokaleik þriðju umferðar íslandsmótsins í fótbolta.

„Mér fannst við algerlega inni í leiknum, byrjuðu gríðarlega vel og vorum óheppnar að skora ekki strax.  Svo fengum mark á okkur og það var erfitt að koma til baka inn í leikinn eftir það en við fengum samt alveg færi.  Við þurfum bara að nýta þessi færi betur.“

Gengi mótherjanna í dag hefur verið skrykkjótt og fyrirliðinn var meðvitaður um það. „Við einblíndum aðallega á okkar leik þó við vissum að Blikaliðið væri aðeins brotið eftir síðasta tap þess og yrði því grimmt að sækja sigur en við vorum undirbúnar í hvað sem er.   Mér fannst ganga vel í dag, þetta var í fyrsta skipti sem allir útlendingarnir okkar byrjuðu leikinn og það gekk allt vel svo þetta er allt að koma,“ bætti Hulda Björg við.

Erfitt að taka stig í Kópavoginum

Andri Hjörvar Albertsson þjálfari Þórs/KA var ánægður með sitt lið en vissi að það yrði á brattan að sækja.   „Þetta tók aðeins á, það er erfitt að koma hingað í Kópavoginn að fá einhver stig en mér fannst við byrja leikinn mjög vel, vorum í góðum málum framarlega á vellinum og settu pressu á Blikana svo þeir lentu í pínu veseni en svo dró aðeins af okkur og við féllum til baka.  Blikakonur komust þá oft upp í hornin og náðu þessum þversendingum, sem þær kláruðu mjög vel,“ sagði Andri Hjörvar.

Engu að síður er þjálfari bjartsýnn í framhaldið.  „Ég held að við eigum helling inni, bæði sem lið og einstaklingar, held að við getum gert betur og sem betur fer höfum við langt sumar til að bæta í það sem okkur vantar.    Lið okkar verður auðvitað, eins og flest önnur lið, bara betra og betra eftir því sem á líður svo ég tel okkur eiga inni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert