Leikur tveggja hálfleika í Laugardal

Agla María Albertsdóttir átti góðan leik fyrir íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu þegar liðið tók á móti Írlandi í vináttulandsleik á Laugardalsvelli í dag.

Leiknum lauk með 3:2-sigri Íslands en Agla María skoraði eitt mark og lagði upp annað fyrir Gunnhildi Yrsu Jónsdóttur.

Agla María kom íslenska liðinu yfir strax á 11. mínútu eftir frábæra sendingu Glódísar Perlu Viggósdóttur út úr vörn íslenska liðsins.

Agla María tók frábærlega á móti boltanum, keyrði í átt að marki og lyfti honum snyrtilega yfir Grace Moloney í marki Íra.

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir tvöfaldaði forystu íslenska liðsins þremur mínútum síðar þegar hún kom boltanum í netið af stuttu færi úr teignum eftir laglegan undirbúning Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur og Öglu Maríu.

Dagný Brynjarsdóttir bætti við þriðja marki íslenska liðsins á 39. mínútu þegar boltinn datt fyrir hana í teignum eftir frábært langskot Alexöndru Jóhannsdóttur sem small í stönginni.

Boltinn datt fyrir fætur Dagnýjar í miðjum vítateignum, sem skoraði af öryggi í tómt markið og staðan því 3:0 í hálfleik.

Heather Payne minnkaði muninn fyrir Íra strax í upphafi seinni hálfleiks þegar boltinn datt dauður í vítateig íslenska liðsins.

Payne lét vaða á markið úr markteignum og Sandra Sigurðardóttir í marki íslenska liðsins réð ekki við skotið.

Amber Barrett klóraði svo í bakkann fyrir Íra með lokamarki leiksins í uppbótartíma þegar hún fékk sendingu inn fyrir vörn íslenska liðsins og skot hennar, utarlega í teignum, fór í stöngina og inn.

Liðin mætast á nýjan leik á þriðjudaginn kemur, hinn 15. júní, en líkt og í dag fer leikurinn fram á Laugardalsvelli.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Ísland 3:2 Írland opna loka
90. mín. +3 mínútur í uppbótartíma.
mbl.is