Írar gleymdu varabúningunum

Elísa Viðarsdóttir í hvítum varabúningi Íslands og Heather Payne í …
Elísa Viðarsdóttir í hvítum varabúningi Íslands og Heather Payne í grænum aðalbúningi Írlands í fyrri leik liðanna á föstudag. Eggert Jóhannesson

Írska kvennalandsliðið í knattspyrnu tók aðeins með grænu aðalbúninga sína til Íslands fyrir tvo vináttulandsleiki í yfirstandandi landsleikjahléi. Þess vegna spilaði íslenska liðið í hvítu varabúningunum sínum á föstudag og mun einnig gera það á morgun.

„Írland tók bara grænu búningana sína með þannig að við þurftum að spila í hvítu, svo einfalt er það,“ sagði Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir á blaðamannafundi á Laugardalsvelli í dag um fyrri leikinn á Laugardalsvelli síðastliðinn föstudag.

Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari sat einnig fyrir svörum. Spurður hvort það sama yrði uppi á teningnum á morgun sagði hann í léttum dúr:

„Já, ég held það, ég held að Írarnir hafi ekki sótt varabúningana sína núna um helgina! Þær allavega sögðust bara hafa komið með græna settið, eitthvert smá klúður hjá þeim og því verðum við aftur hvítar á morgun.“

Ísland mætir Írlandi öðru sinni á Laugardalsvelli á morgun klukkan 17.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert