Frábært veður til að spila í

Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir.
Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta var góður leikur. Við komum vel inn í hann og vorum fastar fyrir,“ sagði Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir, leikmaður Breiðabliks, í samtali við mbl.is eftir 4:0-sigur liðsins á Selfossi á útivelli í Pepsi Max-deildinni í fótbolta í kvöld. 

Áslaug segir 4:0 gefa góða mynd af hvernig leikurinn spilaðist. „Mér finnst það, þótt við hefðum alveg getað skorað fleiri. Við hefðum líka getað fengið mark á okkur. Við komum með mikla baráttu í þennan leik sem vantaði í síðasta leik. Það skilaði okkur fínum sigri,“ sagði Áslaug. 

Leikurinn átti að fara fram á grasvellinum á Selfossi en var færður á gervigrasið rétt fyrir leik. Aðstæður voru ekki nægilega góðar á grasvellinum og línurnar sáust illa. Þá var blautt og kalt á Selfossi í kvöld. 

„Mér fannst fínt að færa mig yfir á gervigrasið. Völlurinn var tættur og blautur. Við vorum allar mjög spenntar fyrir leiknum. Mér finnst þetta persónulega frábært veður til að spila í,“ sagði Áslaug Munda. 

mbl.is