Óli Jó að taka við FH

Ólafur Jóhannesson var síðast við stjórnvölinn hjá Stjörnunni en hætti …
Ólafur Jóhannesson var síðast við stjórnvölinn hjá Stjörnunni en hætti þar eftir síðasta tímabil. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ólafur Jóhannesson er að taka við stjórnartaumunum hjá karlaliði FH í knattspyrnu. Rétt fyrir hádegi var tilkynnt að Logi Ólafsson væri hættur störfum og Ólafur er nú að snúa aftur í Hafnarfjörðinn.

Frá þessu var greint í hádegisfréttum Bylgjunnar rétt í þessu. Búist er við því að formlega verði tilkynnt um ráðningu Ólafs í dag.

Engum sögum hefur farið af því hvað fregnir dagsins þýða fyrir Davíð Þór Viðarsson, sem hefur verið aðalþjálfari FH ásamt Loga.

Samkvæmt heimildum mbl.is verður Davíð Þór þó áfram í þjálfaraliði FH, þótt ekki hafi fengist á hreint hvort það verði sem aðalþjálfari við hlið Ólafs eða sem aðstoðarþjálfari hans.

Ólafur er einn sigursælasti þjálfari landsins og gerði FH að stórveldi í upphafi aldarinnar þegar hann stýrði liðinu til Íslandsmeistaratitla þrjú ár í röð frá 2004 til 2006.

Hann var við stjórnvölinn hjá Hafnarfjarðarliðinu á árunum 1988 til 1991, aftur árið 1995 og síðan frá 2003 til 2007 og vann bikarinn á síðasta ári sínu, áður en hann tók við íslenska landsliðinu, sem hann stýrði í fjögur ár frá 2007 til 2011.

Ólafur stýrði Haukum um skeið eftir það og tók svo við Val í árslok 2014 og var þar til loka tímabilsins 2019. Hann stýrði liðinu til tveggja Íslandsmeistaratitla, árin 2017 og 2018. Árin tvö á undan, 2015 og 2016, varð Valur bikarmeistari undir hans stjórn.

Síðast var hann aðalþjálfari Stjörnunnar með Rúnari Páli Sigmundssyni á síðasta tímabili en hætti að því loknu.

Ólafur varð á síðasta tímabili fyrsti íslenski knattspyrnuþjálfarinn til að stýra liði í 300 leikjum í efstu deild karla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert