FH skoraði sjö mörk í toppbaráttunni

Úr leik FH og Aftureldingar fyrr í sumar.
Úr leik FH og Aftureldingar fyrr í sumar. mbl.is/Árni Sæberg

FH er áfram í öðru sæti í fyrstu deild kvenna í knattspyrnu, Lengjudeildinni, eftir afar sannfærandi 7:1-sigur á Augnabliki í Hafnarfirðinum í kvöld. Afturelding, sem einnig er í harðri toppbaráttu, er í þriðja sætinu eftir hafa unnið 2:0-sigur á HK á útivelli.

Alls voru fjórir leikir í Lengjudeildinni spilaðir í 12. umferðinni í kvöld en henni lýkur annað kvöld þegar topplið KR heimsækir ÍA. KR er með 28 stig eftir 11 leiki en FH er nú með 26 stig að 12 leiknum loknum þökk sé stórsigrinum í kvöld. Brittney Lawrence, Hildur María Jónasdóttir og Sigrún Ella Einarsdóttir skoruðu eitt mark hvor um sig fyrir FH en þær Sigríður Lára Garðarsdóttir og Elísa Lana Sigurjónsdóttir skoruðu báðar tvö mörk.

Afturelding er svo með 25 stig í þriðja sætinu eftir sína 12 leiki en liðið vann 2:0-sigur í Kórnum í kvöld.

Þá vann botnlið Grindavíkur 3:1-sigur á Gróttu til að lyfta sér upp úr fallsæti og upp í 7. sætið. Christabel Oduro skoraði þrennu fyrir Grindavík en Eydís Lilja Eysteinsdóttir minnkaði muninn í 2:1 um stundarfjórðungi fyrir leikslok fyrir Gróttu.

Víkingur vann síðan Hauka, 2:0, í Fossvoginum og fór upp í 4. sætið þar sem liðið hefur 16 stig en Haukar eru áfram með 15 stig, nú í fimmta sæti. Hulda Ösp Ágústsdóttir kom Víkingum yfir undir lok fyrri hálfleiks og Kristín Erna Sigurlásdóttir bætti við marki skömmu eftir hlé.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert