Viljum sýna að við erum á meðal bestu liða deildarinnar

Álfhildur Rósa Kjartansdóttir í leik með Þrótti gegn Breiðabliki á …
Álfhildur Rósa Kjartansdóttir í leik með Þrótti gegn Breiðabliki á dögunum. mbl.is/Árni Sæberg

Álfhildur Rósa Kjartansdóttir, fyrirliði Þróttar úr Reykjavík, sagði liðið hafa æft varnarskipulag sitt afar vel fyrir 3:0 sigurinn gegn Keflavík í úrvalsdeild kvenna, Pepsi Max-deildinni, í kvöld.

„Þetta var svona svolítið þægilegt, 3:0, en svolítið skrítinn leikur samt að spila. Ég veit ekki alveg hvernig ég get útskýrt það en þetta var svolítið furðulegur leikur og frekar jafn myndi ég segja. En við höfðum betur og náðum að koma boltanum þrisvar sinnum í netið,“ sagði Álfhildur Rósa í samtali við mbl.is eftir leik.

Varnarleikur Þróttar var afar vel skipulagður og stafaði lítil hætta af sóknarleik Keflvíkinga. „Það var mjög gott varnarskipulag hjá okkur og erfitt að komast í gegn, enda búnar að æfa það vel fyrir leikinn,“ bætti hún við.

Í síðustu umferð fyrir sléttri viku tapaði Þróttur illa, 1:6, gegn toppliði Vals, og því var síðasta vika nýtt vel í að fara yfir varnarleikinn. Álfhildur Rósa sagði liðið ekkert hafa dvalið við stórtap síðustu viku.

„Það koma slæmir dagar en við náðum að rífa okkur upp úr því. Það gekk mjög vel upp í kvöld.“

Með sigrinum í kvöld fór Þróttur upp í þriðja sæti deildarinnar og fyrirliðinn sagði liðið einfaldlega eiga heima þar.

„Við viljum náttúrulega sýna fram á að við erum með bestu liðunum í deildinni og eigum að vera ofarlega í töflunni, þannig að við erum auðvitað sáttar við að vera í þriðja sætinu núna,“ sagði Álfhildur Rósa að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is