„Fannst þetta verðskuldað stig“

Leikmenn Þórs/KA fagna fyrra marki liðsins í kvöld.
Leikmenn Þórs/KA fagna fyrra marki liðsins í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

„Tilfinningin er bara mjög góð“ sagði Arna Sif Ásgrímsdóttir eftir 2:2-jafntefli við Breiðablik í Pepsi Max deild-kvenna á SaltPay-vellinum í kvöld.

Arna reyndist hetja heimakvenna þegar hún jafnaði metin með síðustu spyrnu leiksins og tryggði liði sínu eitt stig. Leikurinn var mjög jafn og þrátt fyrir að vera töluvert neðar í deildinni voru Þór/KA-stúlkur síst slakari aðilinn heilt yfir.

„Mér fannst við eiga meira skilið út úr þessum leik. Mér fannst við ekki eiga skilið að tapa þannig að fá eitt stig var bara fínt. Mér fannst við gera þetta bara þokkalega vel, vorum sprækar og mér fannst þetta verðskuldað stig.“

Arna Sif segist vera nokkuð ánægð með spilamennsku síns liðs, en þær léku á köflum mjög flottan fótbolta gegn sterku Breiðabliksliði. „Heilt yfir er ég þokkalega ánægð. Við vorum kannski svolítið lengi að átta okkur á því að við gætum haldið boltanum á móti þessum liðum og spilað okkar leik. Mér fannst við bara sterkari ef eitthvað er í seinni hálfleik þrátt fyrir að búa kannski ekki til mörg færi.“

Eins og oft hefur komið fram komu grasvellirnir á Norðurlandi mjög illa undan vetri. Mikil rigning hefur svo verið á Akureyri síðustu daga og fór leikur í Lengjudeild karla fram á SaltPay-vellinum í gærkvöldi. Völlurinn var því mjög erfiður í dag. „Mér fannst völlurinn svo sem ekki hafa mikil áhrif á leikinn en seinna markið sem þær skora kemur upp úr því að ég renn og missi boltann.“ Breiðablik skoraði einmitt annað mark sitt í kvöld úr frábærri skyndisókn eftir þetta atvik.

Þór/KA eru ótrúlegt en satt enn að leita að sínum fyrsta heimasigri í sumar. Þær hafa nú gert þrjú jafntefli í sjö heimaleikjum í deildinni og uppskeran einungis þrjú stig. Það er versti heimaleikjaárangur allra liða deildarinnar. „Nú þurfum við bara að fara að vinna leiki. Við erum búnar að vera að spila fínan fótbolta og spila leiki sem ég tel okkur eiga að vinna. Nú ætlum við að fara að safna fleiri stigum, fara að vinna leiki hérna heima og enda eins ofarlega og við getum í töflunni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert