Guðni tekur við liði HK

Guðni Þór Einarsson á hliðarlínunni hjá Tindastóli í sumar.
Guðni Þór Einarsson á hliðarlínunni hjá Tindastóli í sumar. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Guðni Þór Einarsson hefur verið ráðinn þjálfari kvennaliðs HK í knattspyrnu til næstu tveggja ára.

Guðni kemur til HK frá Tindastóli þar sem liðið náði frábærum árangri undir hans stjórn og fór úr 2. deild upp í úrvalsdeildina á þremur árum, og lék þar í fyrsta skipti á nýliðnu keppnistímabili.

HK leikur í 1. deild eftir aðeins tvö ár með sjálfstæðan meistaraflokk á Íslandsmóti. HK sendi lið í 2. deildina 2020 og fór upp í fyrstu tilraun, og hélt sæti sínu þar eftir gríðarlega tvísýna fallbaráttu en liðið endaði í áttunda sæti af tíu liðum í 1. deildinni sem lauk um síðustu helgi.

mbl.is