„Fékk það í gjöf frá pabba að hugsa um yngri leikmenn“

Sif Atladóttir glaðbeitt á æfingu með íslenska landsliðinu.
Sif Atladóttir glaðbeitt á æfingu með íslenska landsliðinu. Haraldur Jónasson/Hari

Sif Atladóttir, einn reynslumesti leikmaður íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, segir hlutverk sitt innan hópsins ekkert hafa breyst þó hún sé að komast á efri ár knattspyrnuferilsins.

„Ég held bara að ég hafi í gegnum árin verið þannig leikmaður að ég reyni að vera til staðar fyrir yngri leikmenn. Ég reyni að passa upp á að öllum líði vel og taka svolítið heimilislega stemningu á þetta.

Þetta er ekkert öðruvísi hlutverk en ég hef verið með áður, hvort sem ég var í byrjunarliðinu eða ekki. Ég er alltaf sami leikmaður,“ sagði Sif á Teams-fjarfundi með blaðamönnum í gær.

Hún sagði föður sinn heitinn, knattspyrnugoðsögnina Atla Eðvaldsson, hafa kennt sér mikilvægi þess að hlúa vel að sér yngri leikmönnum.

„Ég fékk það í gjöf frá pabba að vera kennt að hugsa um yngri leikmenn af því að það skiptir máli. Það eru þeir sem munu halda áfram vegferðinni sem við erum búin að hefja.

Ég held að það hafi ekkert breyst og ég er bara rosalega stolt af því að geta hjálpað þessum stelpum ef þær þurfa. Ég mun alltaf standa við bakið á þeim, alveg sama hvað,“ sagði Sif.

mbl.is